Landsvirkjun

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 14:22:06 (4223)

2000-02-10 14:22:06# 125. lþ. 61.5 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[14:22]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Stundum finnst mér eins og hv. þingmenn vilji ljúka umræðunni við 1. umr., vilji fara það náið í málin, en samkvæmt þingsköpum á 1. umr. að vera til þess að fjalla almennt um mál en ekki að fara alveg ofan í hvert einasta atriði. En þetta litla frv. hefur kallað á þó nokkuð mikla umræðu hér á hv. Alþingi og í sjálfu sér er ekkert um það að segja. En út af orðum hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur um að óviðeigandi sé að ráðherrar bendi á að mál séu skoðuð í nefnd, þá finnst mér það ekki vera eðlileg athugasemd þar sem nefndastarfið er náttúrlega mikilvægasta starfið á hv. Alþingi. En mér finnst liggja alveg ljóst fyrir hvað verið er að gera með frv. og það kemur fram í þeim snarpa texta í athugasemdum við lagafrv. Hvernig skilja hv. þm. þennan texta, með leyfi forseta:

,,Ýmsir aðilar hafa óskað eftir samstarfi við Landsvirkjun um fjarskiptastarfsemi þar sem fjarskiptakerfi fyrirtækisins yrði notað. Til að af slíku geti orðið þarf Landsvirkjun lagaheimild, enda eðlilegt að slík starfsemi sé rekin utan hefðbundins reksturs fyrirtækisins.``

Þetta finnst mér vera ákaflega skýrt. Landsvirkjun sjálf ætlar ekki að reka þetta heldur setja reksturinn inn í annað fyrirtæki sem er þá í eðlilegu skattumhverfi o.s.frv. Það kemur líka fram í grg. að aðilar hafa óskað eftir samstarfi við Landsvirkjun. Ég held því að hv. þm. séu að mikla þetta eitthvað fyrir sér og kannski óþarflega mikið. Það er ekki mitt hlutverk að svara nákvæmlega fyrir um það hvernig Landsvirkjun mun síðan spila úr þessum málum. Auðvitað er stjórn yfir þessu fyrirtæki og því er ekki fjarstýrt úr iðnrn. ef einhver heldur það. Það er bara ekki þannig. Ég tel að mér beri ekki nein skylda til að svara í smáatriðum hlutum sem eru til umfjöllunar hjá þessu fyrirtæki frekar en mörgum öðrum fyrirtækjum sem heyra undir ráðuneytið. Og eins og allir vita á ríkið ekki eitt þetta fyrirtæki, Landsvirkjun.

Varðandi mál sem nefnd voru hér og spurningar komu fram um ákveðið fyrirtæki sem vinnur að öryggismálum, þá tel ég ekki ástæðu til að svara því nákvæmlega hvert verksvið þess fyrirtækis er og hvernig það tengist þessu máli, því það hlýtur þá að vera mjög óbeint. Hér er einungis um heimild að ræða fyrir Landsvirkjun til að útvíkka starfsemi sína þar sem fyrirtækið er rekið í mjög sérstöku umhverfi. Við vitum að um fjarskiptabúnað er að ræða sem gæti nýst almenningi betur ef þetta frv. verður að lögum, og það sem er kannski allra mikilvægast að hann gæti nýst í sambandi við öryggismál.