Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 14:43:09 (4230)

2000-02-10 14:43:09# 125. lþ. 61.4 fundur 286. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# (ársfundur og skipan stjórnar) frv. 35/2000, viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[14:43]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, nr. 61/1997, með síðari breytingum. Um er að ræða einfalda breytingu á 4. gr. laganna sem felur í sér að halda skuli ársfund Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins fyrir 1. maí ár hvert og að nánar verði kveðið á um ársfundinn í reglugerð.

Viðskrh. skipar á ársfundi fimm menn í stjórn Nýsköpunarsjóðs. Aðrar breytingar eru ekki lagðar til í frv. þessu sem m.a. felur í sér að áfram sitja fimm menn í stjórninni. Eins og áður verður hún skipuð einum manni tilnefndum af iðnrh., einum eftir tilnefningu iðnrh. samkvæmt ábendingum atvinnufyrirtækja í iðnaði, einum eftir tilnefningu sjútvrh., einum eftir tilnefningu sjútvrh. samkvæmt ábendingum samtaka atvinnufyrirtækja í sjávarútvegi og einum samkvæmt tilnefningu Alþýðusambands Íslands.

Ástæða fyrir þessu frv. til laga um breytingar á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins er að á þeim tíma sem sjóðurinn hefur starfað hefur komið í ljós að þörf er á því að reglulega verði haldnir ársfundir eins og almennt tíðkast í atvinnulífinu. Þörf fyrir miðlun upplýsinga er tengjast starfsemi Nýsköpunarsjóðs og annarra stofnana sem ráðstafa opinberu fé er síst minni en almennt gildir í atvinnulífinu. Á grundvelli þess er í frv. þessu lagt til að ársfundir Nýsköpunarsjóðs verði festir í sessi. Gert er ráð fyrir að ráðherra setji nánari ákvæði um dagskrá og fyrirkomulag funda í reglugerð en við það miðað að dagskrá ársfunda Nýsköpunarsjóðs verði með hefðbundnu sniði.

Ég mælist til þess, hæstv. forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. iðnn. og 2. umr.