Sameining ríkisbanka áður en þeir verða seldir

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 14:51:56 (4233)

2000-02-10 14:51:56# 125. lþ. 61.7 fundur 265. mál: #A sameining ríkisbanka áður en þeir verða seldir# þál., Flm. GAK (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[14:51]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um sameiningu Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands. Þáltill. er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta kanna hagkvæmni þess að sameina ríkisbanka áður en til sölu þeirra kemur til að tryggja þjóðinni hámarksarð af eign sinni.``

Viðskrh. lagði í desember sl. fram frv. til laga um breytingu á lögum nr. 50/1997, um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands. Samkvæmt frv. sem nú er orðið að lögum var stefnt að því að 15% af hlutafé ríkisins í hvorum banka yrðu seld í lok desember 1999. Það gekk eftir og seldist allt hlutaféð.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir, með leyfi forseta:

,,Hlutabréf í ríkisbönkunum verði seld með það að markmiði að ná fram hagræðingu á fjármagnsmarkaði en tryggja um leið virka samkeppni á markaðnum til að ná fram ódýrari þjónustu.`` Þar segir enn fremur: ,,Við söluna verði þess gætt að ríkið fái hámarksverð fyrir eign sína í bönkunum.``

Við flutningsmenn tillögunnar, sá sem hér stendur og 1. vþm. Frjálsl. fl., Gunnar Ingi Gunnarsson, sem sat á þingi fyrir áramót, teljum víst að ríkisstjórnin vilji standa að sölu þessara eigna í samræmi við stefnuyfirlýsingu sína og því hljóti að teljast eðlilegt að auka verðmæti eignanna eins og mögulegt er áður en þær verða falboðnar að öllu leyti.

Komið hefur fram opinberlega í viðtölum við stjórnendur banka að þeir telji að bankar verði sameinaðir þegar ríkið á ekki lengur meiri hluta. Því er rétt að sameina bankana fyrst til að þjóðin fái hámarksarð af eign sinni og að þeir 3--4 milljarðar, sem verðmæti sameinaðs banka, Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, gæti aukist um eftir sameiningu þeirra, komi inn áður en þjóðin selur þessa eign sína. Ef Landsbanki Íslands yrði t.d. sameinaður Íslandsbanka væri verið að rétta eigendum einkabankanna að gjöf helminginn af þeirri verðmætaaukningu sem sameining Landsbanka og Búnaðarbanka gæfi í aðra hönd. Rétt er að minna á að enn hafa ekki verið settar reglur um dreifða eignaraðild og því erfitt að sjá fyrir hvernig mál þróast verði einungis tekið mið af markmiðum ríkisstjórnarinnar um dreifða eignaraðild, eins og segir orðrétt í frv. hæstv. viðskrh. eins og það var samþykkt á hinu háa Alþingi fyrir jól.

Nú hefur verið upplýst af stjórnendum Fjárfestingarbanka atvinnulífsins að bankinn hyggist opna fyrir innlánsviðskipti og almenna bankaþjónustu fyrir einstaklinga. Í ljósi þessa er enn frekar ástæða til að stíga þetta skref, að sameina Landsbankann og Búnaðarbankann í einn öflugan banka áður en þeir verða einkavæddir með sölu á þeim hluta sem er í eigu þjóðarinnar og tryggja þannig að sem mest verð fáist fyrir bankana við sölu. Svo er annað mál hvort menn vilja nota það fé sem fæst við sölu þessara banka fljótlega eftir að þeir peningar koma inn til ríkissjóðs eða síðar. Það fer auðvitað eftir ástandi í þjóðfélaginu hverju sinni. Taka þarf mið af því hvort mikil þensla er fyrir í þjóðfélaginu eða ekki. Eftir sem áður væri hægt að finna mörg verkefni sem koma mundu þjóðfélaginu vel og hægt væri að framkvæma fyrir hið aukna fé sem fengist við sölu bankanna ef þeir yrðu sameinaðir áður en til sölu kemur.