Framtíð Rafmagnsveitna ríkisins (Rarik)

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 15:10:21 (4236)

2000-02-10 15:10:21# 125. lþ. 61.94 fundur 304#B framtíð Rafmagnsveitna ríkisins (Rarik)# (umræður utan dagskrár), RG
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[15:10]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Það er forvitnilegt að stjórnarflokkarnir eru komnir í hár saman út af vinnubrögðum. Það kemur okkur í stjórnarandstöðu reyndar ekki á óvart eins og við höfum margsinnis bent á í umræðum í þessum sal.

Herra forseti. Samfylkingin vill að unnið verði betur að uppbyggingu atvinnumála á landsbyggðinni en í stjórnartíð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar og undir forræði hans sem byggðamálaráðherra. Það verður að ná fram meiri fjölbreytni í störfum í dreifbýli en hingað til hefur verið gert. Þess vegna er þýðingarmikið að staðsetja nýja starfsemi og flytja störf út á landsbyggðina þegar það er skynsamlegt, fært og í sátt.

Stjórnendur og starfsmenn Rariks heyra hins vegar um sameiningaráform í fréttunum. Vinnubrögð ríkisstjórnarinnar virka gerræðisleg á þá sem á hlýða. Það er alveg ljóst að það hefur verið skoðað frá árinu 1993 hvort ávinningur væri að því að sameina Rarik og orkuveitur Akureyrar. Engar ákvarðanir hafa verið teknar á þessu tímabili. Nú tekur ráðherrann ákvarðanir eins og hann eigi fyrirtækið, án samráðs og athugunar á því hvort aðrir kostir séu jafngóðir eða e.t.v. betri.

Hvað með Orkubú Vestfjarða og stöðu þess fyrirtækis sem hefur fyrirheit ríkisins um að það kaupi Orkubú Vestfjarða? Hver á að kaupa Orkubúið nú ef af þessu verður? Hvað með Hveragerði eins og hér hefur verið nefnt og virkjunaráform Sunnlenskrar orku? Hvað með samvinnu við Hitaveitu Suðurnesja í samanburði við virkjunaráform á Norðurlandi að Þistilreykjum? Þetta ætti að vera skoðað, herra forseti, áður en ákvarðanir eru teknar eins og hér hefur verið gert af hálfu ríkisstjórnar og ráðherra. Um það er rætt í þessari utandagskrárumræðu en skondið, herra forseti, að stjórnarliði skuli hefja umræðuna.