Framtíð Rafmagnsveitna ríkisins (Rarik)

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 15:12:36 (4237)

2000-02-10 15:12:36# 125. lþ. 61.94 fundur 304#B framtíð Rafmagnsveitna ríkisins (Rarik)# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[15:12]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mér virðist í raun blandað saman umræðum um tvö mál. Það fyrra er spurningin um staðsetningu höfuðstöðva Rafmagnsveitna ríkisins. Ég get svo sannarlega tekið undir það að vel færi á því að þetta fyrirtæki sem fyrst og fremst þjónar landsbyggðinni hefði höfuðsstöðvar sínar þar, t.d. á Akureyri. Í öðru lagi er fullkomlega eðlilegt að Akureyringar og Norðlendingar vilji huga að stöðu sinni í orkumálum í ljósi þeirra breytinga sem þar hafa orðið.

Svo kemur að hinum þætti þessa máls sem ég held að ætti að halda aðgreindum, þ.e. spurningunni um breytingar á fyrirtækinu Rafmagnsveitur ríkisins. Spurningarnar eru um hvort sameina eigi það fyrirtæki orkuveitum í eigu annarra aðila þannig að um fyrirtæki í blandaðri eign yrði að ræða. Þá vakna spurningar um framtíðarskipan orkumála í landinu. Hver verður framtíð Landsvirkjunar? Hver verður framtíð Rafmagnsveitna ríkisins? Hvernig á að uppfylla ákvæði orkutilskipunar EES-samningsins o.s.frv.? Hvernig á að sjá fyrir t.d. verðjöfnun á raforku í þessu nýja framtíðarfyrirkomulagi. Spurningar af því tagi og hvort þarna hangi á spýtunni áform um stórfellda einkavæðingu í orkugeiranum held ég að við verðum að fá svarað. Þetta nýja landslag þarf að teikna upp áður en menn taka lítt ígrundaðar ákvarðanir um afmarkaða þætti þessara mála. Ég teldi fara vel á því að menn reyndu að skýra þessa þætti og halda þeim aðgreindum. Það getur verið hið besta mál að þarna verði höfuðstöðvar Rafmagnsveitna ríkisins færðar til. Það þarf að gera með skynsamlegum hætti og í góðri sátt við starfsmenn o.s.frv. Reyndar er vægi þess máls minna en ætla mætti vegna þess að starfsemin er nú þegar verulega dreifð um landið. En hvað hitt varðar, herra forseti, þá held ég að mikil undirbúningsvinna sé óunnin af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Hún þarf að liggja fyrir áður en hægt er að taka skynsamlegar ákvarðanir.