Fjárreiður ríkisins

Mánudaginn 14. febrúar 2000, kl. 15:35:50 (4259)

2000-02-14 15:35:50# 125. lþ. 62.11 fundur 243. mál: #A fjárreiður ríkisins# (laun, risna o.fl.) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 125. lþ.

[15:35]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. tók vel undir með frv. sem gengur út á að kjarakerfi hins opinbera skuli vera eins opið og kostur er. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa slík fyrirheit og góð orð um það efni. Talsvert var um það rætt þegar lög um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna voru samþykkt fyrir þremur eða fjórum árum, að með þeim lögum yrði stuðlað að því að kerfið yrði allt opið og gagnsætt.

Nú bregður hins vegar svo við að undir forsjá þeirrar sömu ríkisstjórnar og hefur uppi þessi góðu orð og fyrirheit er verið að loka kerfinu. Það er að gerast. Þrátt fyrir ný upplýsingalög og greinargerð með þeim lögum sem kveður á um að kerfið skuli vera opið, þá er lokað á upplýsingar. Ef leitað er eftir upplýsingum um umsamin laun starfsmanna hjá ríkisstofnunum, þá er neitað að svara og fjmrn. hefur aldrei gert neina athugasemd við þetta enda þótt samtök launafólks hafi knúið á um að þetta sé opið og væri æskilegt að heyra álit hæstv. fjmrh. á þessu framferði stofnana ríkisins að loka launakerfinu.