Tollalög

Mánudaginn 14. febrúar 2000, kl. 15:43:27 (4264)

2000-02-14 15:43:27# 125. lþ. 62.12 fundur 196. mál: #A tollalög# (aðaltollhafnir) frv. 87/2000, Flm. ÍGP (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 125. lþ.

[15:43]

Flm. (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum. Flutningsmenn auk mín eru hv. þm. Jón Kristjánsson, Margrét Frímannsdóttir, Árni Johnsen, Arnbjörg Sveinsdóttir, Lúðvík Bergvinsson, Drífa Hjartardóttir, Jónas Hallgrímsson, Ólafía Ingólfsdóttir og Einar Már Sigurðarson.

Í 1. gr. frv. stendur, með leyfi forseta:

,,Við 1. mgr. 28. gr. laganna, sbr. lög nr. 40/1989, bætast tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:

16. Höfn í Hornafirði.

17. Þorlákshöfn.``

Í 2. gr. segir að lög þessi öðlist þegar gildi.

Þetta réttlætismál hefur verið flutt tvisvar áður en ekki verið afgreitt. Málin eru í raun þverpólitísk því að flutningsmenn eru úr nær öllum flokkum í Suðurlands- og Austurlandskjördæmum.

Það má í raun segja að landshlutar og byggðarlög séu sífellt í samkeppni um samgöngur, atvinnutækifæri og þjónustu og þá atvinnumöguleika sem í boði eru. Það er í raun skylda stjórnvalda að skapa sem jafnastar aðstæður í byggðarlögunum. Hér er því um mikið réttlætismál að ræða. Í bæjarstjórnum Ölfushrepps þar sem Þorlákshöfn er og Hafnar í Hornafirði hafa margoft spunnist umræður og athuganir á því hvort ekki væri mögulegt að fá viðurkenndar aðaltollhafnir á þeim stöðum. Þrátt fyrir viðræður, bréfaskriftir og ýmislegt fleira hefur lítið gengið í málinu og yfirvöld ekki enn séð sér fært að verða við óskum heimamanna. Það er í raun óþolandi staða og verður vart liðið öllu lengur.

[15:45]

Þorlákshöfn er eina fiski- og flutningahöfn Suðurlandsundirlendisins en Vestmannaeyjar eru í raun eina aðaltollhöfn á Suðurlandi. Þorlákshöfn var byggð upp með samstilltu átaki samvinnumanna úr Rangárvalla- og Árnessýslu undir forystu Egils Thorarensens og fleiri framsýnna og góðra manna úr þessum héruðum. Vegna frammíkalls frá hv. þm. Kristjáni Pálssyni, þar eð ég veit að hv. þm. verður væntanlega bráðum þingmaður Suðurlandskjördæmis, hvet ég hann til að kynna sér þessa sögu. Sem betur fer voru margir víðsýnir menn, (Gripið fram í.) samvinnumenn eru bæði sjálfstæðis- og framsóknarmenn og þannig er óþarft að vera með innskot sem þetta. Í gegnum tíðina hefur skapast mikil samstaða Sunnlendinga um höfnina í Þorlákshöfn. Sunnlendingar standa einhuga um höfnina og telja að hún eigi að njóta þessara sjálfsögðu og eðlilegu réttinda.

Í Þorlákshöfn hefur verið byggð glæsileg aðstaða í kringum fiskútflutning, þ.e. kæli- og frystigeymsla. Þetta fyrirtæki nefnist Kuldaboli og var vígt í nóvember sl. Þá hefur einnig verið byggð upp tollvörugeymsla í Þorlákshöfn. Sú tollvörugeymsla er tilbúin. Það er auðvitað mjög brýnt að Þorlákshöfn nái þessum réttindum. Frá Þorlákshöfn eru t.d. beinar reglulegar siglingar til Portúgals. Undanfarin ár hefur mikilvægi Þorlákshafnar aukist sem vöruflutningahafnar. Það á við um stykkjavöru, kornvöru, áburð og svo ekki sé minnst á vikurflutninga sem hafa verið miklir um Þorlákshöfn.

Oft hefur komið upp umræða um fjölbreytilegan iðnað á svæðinu og jafnvel stóriðju. Nú síðast voru Þorlákshafnarbúar að velta fyrir sér hörfægingu eða hörþvotti sem er spennandi nýtt atvinnutækifæri. Einnig eru uppi hugmyndir um farþegaflutninga með ferjusiglingum. Því má segja að óhjákvæmilegt sé að gera Þorlákshöfn að aðaltollhöfn þar sem nútímaflutningar krefjast skjótrar og lipurrar afgreiðslu. Það er sjálfsagt réttlætismál fyrir íbúa Þorlákshafnar og Hafnar í Hornafirði. Einnig mundi það auka mikilvægi hafnanna á þessum stöðum sem inn- og útflutningshafna að gera þær að aðaltollhöfnum.

Embætti tollvarðar á Selfossi var stofnað árið 1994. Tollafgreiðslur eru á þriðja þúsund á ári auk þess sem tollverðir á Selfossi hafa sinnt tollafgreiðslu í Þorlákshöfn. Tollhöfnin á Selfossi veitir mikilvæga þjónustu fyrir Suðurland og engin ástæða er til þess að raska þeirri stöðu. Málið snýr eingöngu að réttarstöðu Þorlákshafnar og samkeppnisstöðu þessara byggðarlaga, Þorlákshafnar annars vegar og Hafnar í Hornafirði hins vegar. Á Austurlandi er syðsta aðaltollhöfnin Eskifjörður og því óralangur vegur og löng sjóleið frá Eskifirði til Vestmannaeyja.

Höfn í Hornafirði er ört vaxandi byggðarlag. Fyrir það byggðarlag, eins og fyrir Þorlákshöfn er mikið réttlætis- og hagsmunamál að öðlast réttindi aðaltollhafnar, enda hafa bæjaryfirvöld óskað eftir breytingu í þessa átt. Íbúafjöldi Hafnar hefur meira en tvöfaldast á undanförnum árum og atvinnufyrirtæki þar hafa eflst að sama skapi. Mjög merkilegar tilraunir hafa verið gerðar við að flytja út lambakjöt til Belgíu á vegum KASK undir stjórn Pálma Guðmundssonar kaupfélagsstjóra og vonandi verður framhald á þeim útflutningi. Í umdæmi sýslumannsins á Höfn hefur tollafgreiðslum fjölgað jafnt og þétt á undanförnum árum en á Höfn er enginn starfandi töllvörður. Tollafgreiðsla fer því fram jafnhliða öðrum störfum á skrifstofu sýslumannsins á sama hátt og gert er á Selfossi. Lögreglan á Höfn sinnir tollun þegar skip og bátar koma frá útlöndum. Á síðasta ári var mikil umræða um neyslu eiturlyfja á Höfn í Hornafirði og hafa bæjaryfirvöld og sýslumaðurinn gert allt sem í þeirra valdi stendur til að uppræta þann ófögnuð.

Um báðar þessar hafnir, Höfn í Hornafirði og Þorlákshöfn, gilda þær reglur að óska verður heimildar tollgæslustjóra í Reykjavík fyrir tollun skipa inn í landið og úr því. Þrátt fyrir lipurð embættismanna og tollþjónustunnar er um gamaldags, úrelt kerfi að ræða. Því er nauðsynlegt að breyta því svo fljótt sem auðið er. Þetta mál heyrir undir hæstv. fjmrh. og hefur ekki áður komið til kasta þess öfluga ráðherra sem nú situr. (Gripið fram í.)

Ég vonast til að hv. þm. Össur Skarphéðinsson sperri eyrun, ég er að tala til hæstv. fjmrh. Þetta mál hefur aldrei komið fyrir hann áður. Ég treysti því að hæstv. fjmrh. kippi þessu mikilvæga máli í liðinn á þessu þingi og sem allra fyrst. Ég veit að hæstv. ráðherra er hlynntur samkeppni á öllum sviðum og ég trúi ekki að hann geti hugsað sér að útiloka staði eins og Þorlákshöfn og Höfn í Hornafirði frá þeirri sjálfsögðu kröfu að þær verði aðaltollhafnir.

Ég sagði í upphafi máls míns að það væri skylda stjórnvalda að skapa sem jafnastar aðstæður í byggðarlögum landsins. Hér er um mikið réttlætismál að ræða og ég treysti því að hæstv. fjmrh. taki á því á þessu þingi.