Tollalög

Mánudaginn 14. febrúar 2000, kl. 16:03:34 (4267)

2000-02-14 16:03:34# 125. lþ. 62.12 fundur 196. mál: #A tollalög# (aðaltollhafnir) frv. 87/2000, GHall
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 125. lþ.

[16:03]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Frv. sem hér er til umfjöllunar er nú lagt fyrir þingið í þriðja skipti eins og ágætir ræðumenn hafa nefnt. Þeir telja að þar með sé komið að leiðarlokum og málið hljóti að verða að lögum á þessu þingi. Það væri dálítið merkilegt ef svo væri hér á hinu háa Alþingi að ekki þyrfti annað en leggja frv. fram þrisvar og þá mundu þau ná í gegn. Þá væru líklega mörg frv. komin í gegn sem kannski væru ekki beint í anda þess sem þingið vill í lagasetningu. En eins og hv. síðasti ræðumaður, Margrét Frímannsdóttir, kom hér inn á áðan, og um það er ég henni hjartanlega sammála, er mjög sérstakt að fyrst skyldi ráðinn tollvörður á Selfoss fremur en Þorlákshöfn væri gerð að tollhöfn. Það er mjög sérstakt. Það var árið 1994 og ég minnist þess að hér á þingi var tekist á um það mál. Eftir að það var afgreitt að tollvörður væri staðsettur á Selfossi --- það hefur líklega verið að kröfu Eimskips eða Samskipa --- var vörum ekið beint frá skipshlið til Selfoss og þær tollafgreiddar þar, líklega til að komast fram hjá virðisaukaskatti á flutningi frá Sundahöfn til Selfoss m.a., allt hét þetta þá sjóflutningur frá dyrum til dyra.

Ég vildi segja, virðulegi forseti, að það kemur mér dálítið einkennilega fyrir sjónir að flutningsmenn skuli ekki leggja meira upp úr að vinna greinargerðina betur en raun ber vitni. Það kemur t.d. ekki fram hve mörg skip hafi komið til Þorlákshafnar eða Hornafjarðar og þurft á tollafgreiðslu að halda. Aðeins er talað um þrjú þúsund tollafgreiðslur á Selfossi auk þess sem viðkomandi tollþjónn hafi afgreitt skip í Þorlákshöfn. Ég tel að þetta sé grundvallarspurning. Um hvað erum við að fjalla hér? Hversu mikil er þörfin miðað við skipakomur til þessara tveggja hafna? Ég tek undir það með Margréti Frímannsdóttur að eðlilegt er að þingmenn hugleiði fleiri kosti en þá að bæta við. Það er eðlilegt að tollafgreiðslan á Selfossi sé í samstarfi eða starfi sem slík í Þorlákshöfn sé þetta mál jafnbrýnt og flutningsmenn telja.

Í grg. segir m.a., með leyfi forseta:

,,Í umdæmi sýslumannsins á Höfn hefur tollafgreiðslum fjölgað jafnt og þétt undanfarin ár.`` Hvað þýðir það? Það segir ekki nokkurn skapaðan hlut. Síðan segir: ,,Þar er enginn starfandi tollvörður. Tollafgreiðsla fer því fram meðfram öðrum störfum á skrifstofu sýslumanns eins og á Selfossi.`` Skil ég rétt að þetta sé svona aukastarf tollvarðar á Selfossi, að hans aðalstarf sé á skrifstofunni en á Hornafirði sé það aukastarf sýslumannsins? Textinn er ekki nógu skýr til að maður átti sig á stöðu mála. Þess vegna er mjög erfitt fyrir þingmenn að taka afstöðu til þessa máls.

Síðan segir hér, með leyfi forseta: ,,Þrátt fyrir lipurð embættismanna tollþjónustunnar sem hlut eiga að máli er þetta kerfi þungt í vöfum og tafsamt og vinnubrögðin ekki nútímaleg.`` Mundu þau verða nútímalegri ef staðsettur væri tollþjónn í Þorlákshöfn? Er afgreiðslan einhvern veginn öðruvísi ef tollþjónn er staðsettur í viðkomandi höfn?

Síðan segir: ,,Af framanrituðu er ljóst að tímabært er að gerðar verði breytingar til batnaðar án frekari tafa með því að Þorlákshöfn og Höfn í Hornafirði verði gerðar að aðaltollhöfnum.`` Hvaða tafir eru menn að tala um? Er framgangur málsins hér á þingi óeðlilegur og þörf á hraðafgreiðslu þess? ,,Með því móti einu mundu þessi byggðarlög og nágrenni þeirra öðlast rétt og möguleika á tollmeðferð skipa og á innflutningi og útflutningi, enda mun slíkt leiða til einföldunar, aukinnar hagkvæmni, sparnaðar og betra eftirlits í viðkomandi umdæmum.``

Ég get tekið undir það síðasta. Ljóst er að við þurfum að gera verulegt átak í að fylgjast með innflutningi á varningi og sérstaklega ef rétt reynist, eins og hv. 1. flm. þessa máls, Ísólfur Gylfi Pálmason, kom hér inn á, að í gegnum Hornafjarðarhöfn hafi farið óeðlilega mikið magn af eiturlyfjum. Sé svo er vissulega full ástæða til þess að bregðast fljótt og vel við til varnar.

Ég bendi hins vegar á það sem fram kemur í greinargerðum, eins og t.d. hér í bréfi Hafnarsjóðs til tollstjórans í Reykjavík, sem dagsett er 17. september 1991. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Eins og yður er kunnugt eru aðaltollhafnir þrjár á Austurlandi: Seyðisfjörður, Eskifjörður og Neskaupstaður, en engin sunnar og vestar fyrr en í Vestmannaeyjum. Forsendur fyrrnefndra laga hafa e.t.v. breyst nokkuð á þeim rúmu tveimur áratugum sem liðnir eru frá gildistöku þeirra ...`` Hér er síðan nefndur íbúafjöldinn og aflaverðmætin. Að lokum segir: ,,Áður en frekari skref verða stigin í þessu máli er óskað eftir áliti embættis yðar um kosti þess og galla að skilgreina Höfn sem aðaltollhöfn.`` Hefur þessu bréfi aldrei verið svarað? Ég beini því til flutningsmanna. Sé svo hefði verið eðlilegt að það hefði fylgt með textanum svo þingmenn gætu gert sér grein fyrir málinu. Hér kemur ekki heldur fram álit hæstv. fjmrh. eða fjmrn. á þessu, allt eykur þetta útgjöld ríkisins, það er alveg ljóst.

En ég er ekki á móti málinu sem slíku. Ég geri mér grein fyrir mikilvægi þessara tveggja hafna en ég tel að eðlilegt hefði verið að hér fylgdi með hversu mikið umfangið er svo að betur mætti átta sig á málinu.