Tollalög

Mánudaginn 14. febrúar 2000, kl. 16:16:33 (4272)

2000-02-14 16:16:33# 125. lþ. 62.12 fundur 196. mál: #A tollalög# (aðaltollhafnir) frv. 87/2000, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 125. lþ.

[16:16]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Ég lýsti því áðan að ég er enginn spesíalisti um tollhafnir. Hitt er mér alveg ljóst að það ræðst ekki alltaf af skipakomum til hafna hvort þar séu tollhafnir eða ekki, það ræðst fyrst og fremst af þeim farmi sem skipið er með. Þess vegna er það, sem hér hefur oft komið fram, að skip koma til Þorlákshafnar jafnvel þó þar sé engin tollhöfn. Ef skipin þurfa afgreiðslu við þá koma þau þangað. Ég held hins vegar að við séum að blanda saman tveimur óskyldum málum. Það kom greinilega fram í máli tveggja hv. þm. Suðurlands sem töluðu áðan að það væri réttlætismál til að jafna samkeppni milli hafna. Ég hélt að meginmálið væri að stuðla að því að hugsa um Þorlákshöfn og Hornafjörð en ekki að þetta byggðist á þeim grundvallaratriðum sem hér var komið inn á að þetta væri samkeppnismál en ekki að þetta væri þarfamál fyrir Þorlákshöfn og Hornafjörð. Ég vona hins vegar að komi þau rök að virðulegur fjmrh. telji eðlilegt að embætti tollvarðar verði stofnað bæði við Hornafjörð og Þorlákshöfn megi það leiða til þess að birta og ylur komi yfir þessar hafnir og þangað fjölgi mjög skipakomum.