Mat á umhverfisáhrifum

Mánudaginn 14. febrúar 2000, kl. 16:24:18 (4278)

2000-02-14 16:24:18# 125. lþ. 62.14 fundur 197. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (undanþáguákvæði) frv., Flm. ÖS
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 125. lþ.

[16:24]

Flm. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Í dag gerðist sá merkilegi atburður að hæstv. forsrh. og hæstv. iðnrh. var afhent áskorun frá 40 þús. Íslendingum sem voru að óska eftir því að tiltekin virkjunarframkvæmd væri sett í mat á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum frá 1993. Um þetta mál hafa spunnist miklar deilur eins og þingheimi er gerla kunnugt. Stjórnvöld hafa ekki orðið við þessum óskum og hafa vísað til þess að bráðabirgðaákvæði eru í gildi við þessi lög frá 1993 sem undanþiggja þær framkvæmdir mat á umhverfisáhrifum sem fengið höfðu leyfi fyrir gildistöku laganna. Þess vegna er táknrænt að á þessum degi, herra forseti, ræðum við frv. frá nokkrum þingmönnum Samfylkingarinnar þar sem lagt er til að þetta ákv. til brb. í lögunum verði numið á brott. Ég tel, herra forseti, að það sé löngu tímabært, og það er margt sem mælir með því, eins og ég mun rekja í máli mínu. Ég spyr, herra forseti, er hæstv. umhvrh. í húsi? Hér er um að ræða lagafrv. sem felur í sér breytingu sem varðar mikla pólitíska umræðu sem ...

(Forseti (GÁS): Ef hv. þm. lítur til vinstri þá er hæstv. ráðherra þar.)

Herra forseti. Ég hef litið til vinstri og gleði mín er rík yfir því að sjá hæstv. ráðherra í salnum og vænti þess að hún muni hér á eftir veita okkur þá náð að greina frá því hvaða afstöðu hún hefur til þessa máls.

Þegar lögin um mat á umhverfisáhrifum voru sett árið 1993 var í reynd verið að svara nýjum kröfum sem fram höfðu komið á sviði umhverfismála. Fram að þeim tíma höfðu ekki verið neinar sérstakar heimildir eða skilyrði í lögum til þess að láta fara fram mat á afleiðingum margvíslegra framkvæmda á hálendinu og annars staðar. Eins og svo margt annað sem telja má til góðra nýmæla í umhverfislöggjöfinni voru þessi lög sett samkvæmt skuldbindingum sem við höfum axlað með því að gerast aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Tilskipun sem þar var samþykkt, reyndar löngu áður en við urðum aðilar að þeim samningi, skilyrti aðild með því að þær þjóðir, sem voru hlutar af Evrópska efnahagssvæðinu, tækju upp í löggjöf sína ákvæði um mat á umhverfisáhrifum.

Eins og menn muna var jafnframt því sem lögin voru samþykkt ákveðið á síðustu stundu að hnýta við lagafrv. tillögu sem kom fram í umhvn. þingsins um að þær framkvæmdir sem hefðu fengið leyfi fyrir tiltekna dagsetningu þyrftu ekki að hlíta þessu mati. Ég ætla ekki, herra forseti, að draga þær deilur sem hafa orðið um gildi þessa ákvæðis inn í umræðuna. Ég tel hins vegar að það sé nauðsynlegt að við lærum af umræðunni. Eitt af því sem kom í ljós, ekki síst fyrir atbeina hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, var að það er allmargar heimildir að finna í núgildandi lögum um raforkuver og virkjanir sem heimila mjög miklar framkvæmdir á hálendinu án þess að þeim sé beint í farveg löggilts mats á umhverfisáhrifum. Ástæðan er auðvitað sú að leyfið sem veitt var með viðkomandi lögum var samþykkt af þinginu mörgum árum, jafnvel áratugum áður en viðhorfin breyttust og við svöruðum með því að samþykkja þessi lög um mat á umhverfisáhrifum. Þetta teljum við auðvitað, herra forseti, að sé fráleit staða. Það var reyndar svo að mér þótti merkilegt, og fleiri þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni, að verða þess áskynja að þarna var um að ræða a.m.k. átta stórar virkjanir, eða meðalstórar eftir atvikum, sem heimild er fyrir. Ég tók eftir því að þeir sem áttu mestan þátt í umræðunni af hálfu stjórnarliða og stjórnarandstæðinga okkar gerðu sér ekki grein fyrir þessu. Ég vissi t.d. ekki að það liggja fyrir heimildir um allmargar virkjanir í gömlum lögum sem þýðir það í reynd, ef við förum eftir hljóðan bókstafsins, að engin nauðsyn er til þess að beina þeim í farveg umhverfismats. Það tel ég auðvitað ófært, herra forseti.

Hvað sem okkur kann að þykja um deiluna um Fljótsdalsvirkjun, sem er nýlega afstaðin í þinginu, þá er alveg ljóst að tímarnir eru breyttir og þrátt fyrir það hvar menn stóðu í þeirri deilu held ég að það gildi jafnt um þá sem eru í liði stjórnarandstöðu og stjórnarliðs. Það er oft þannig að viðhorf til merkra mála sem koma upp með breyttum tíðaranda, fara ekki eftir flokkspólitískum skoðunum, miklu frekar eftir kynslóðum. Það er trú mín að sú kynslóð sem er nú þannig stödd í lífsferli sínum að hún er að axla ábyrgð af stöðugra þjóðfélagi sé upp til hópa þannig stemmd að hún telji að það sé ekki forsvaranlegt að menn ráðist í miklar framkvæmdir sem geta breytt ásýnd landsins og geti haft mikil og varanleg áhrif á lífríkið í landinu án þess að reynt sé að meta það til fulls. Ég held, herra forseti, að við eigum að læra af því sem gerðist með þeim deilum sem spruttu af Fljótsdalsvirkjun. Þar var það auðvitað alveg ljóst, þegar búið var að kafa djúpt í það mál, að menn höfðu ekki fullar reiður á því hvað mundi nákvæmlega gerast ef ráðist yrði í þessa framkvæmd.

[16:30]

Nú blasir við, herra forseti, að það eru þrenn eða fern lög í gildi sem heimila stórar virkjanir. Að óbreyttum lögum um mat á umhverfisáhrifum er ekki hægt að draga aðra ályktun en þá að hæstv. ríkisstjórn sé þeirrar skoðunar að allar þessar framkvæmdir séu undanþegnar mati á umhverfisáhrifum. Það er auðvitað ófært. Ég leyfi mér að benda t.d. á, herra forseti, að 1981 samþykkti Alþingi ákaflega yfirgripsmikil og víðfeðm lög um raforkuver sem fólu í sér heimildir til mjög mikilla framkvæmda á hálendinu, á stöðum þar sem við teljum ákaflega mikils um vert að hafa náttúruna sem næst upprunalegu lagi. Ég leyfi mér t.d., herra forseti, að vekja máls á því að umdeilt hálendissvæði, Þjórsárver, myndi að öllum líkindum spillast, ég þori ekki að segja hversu mikið, en ég held að það sé óhjákvæmilegt að komast að þeirri niðurstöðu að ef ráðist yrði í allar þær framkvæmdir sem heimilar eru samkvæmt lögum um raforkuver frá 1981, þá mundi a.m.k. hluti Þjórsárvera spillast. Gengur það að í kjölfar þeirra deilna sem hafa orðið um Eyjabakka og Fljótsdalsvirkjun látum við þessi lög liggja óbreytt? Eigum við ekki að læra af þessu og sammælast um það, herra forseti, að áður en menn ráðast t.d. í það að byggja og stækka þær virkjanir sem heimildir eru fyrir frá árinu 1981, taki menn af allan vafa um að allar stórframkvæmdir þurfi að fara í mat á umhverfisáhrifum hvað sem líður bráðabirgðaákvæði II í lögunum frá 1993? Ég held að allir skynsamir menn hljóti að komast að því að einungis þannig getum við haft í heiðri varúðarregluna sem allir flokkar sem sæti eiga á Alþingi hafa a.m.k. í orði lýst að þeir fylgi, til dæmis hv. þm. stjórnarliðsins, sem töldu að Fljótsdalsvirkjun ætti ekki að fara í mat á umhverfisáhrifum vegna þessa ákvæðis, gerðu það allir með röksemdum sem þeir beittu og vísuðu til sérstakra aðstæðna. En það er ekki hægt að nota þær röksemdir endalaust, herra forseti. Við þurfum þess vegna að taka af allan vafa í þessu máli.

Hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa andæft óskum um beiðni stjórnarandstöðunnar og reyndar obba þjóðarinnar um að Fljótsdalsvirkjun færi í mat á umhverfisáhrifum með vísan til þessa ákvæðis og sagt sem svo að lög geti ekki verið afturvirk. Nú gæti ég fært mörg rök fyrir því og ýmsir í þessum sal að það umdeilda bráðabirgðaákvæði standist ekki alþjóðlegar skuldbindingar sem við höfum axlað. Ég gæti líka, og þá er ég ekki bara að tala um Evróputilskipanir, bent á að eins og túlkun alþjóðlegra sáttmála á borð við Ríó-yfirlýsinguna sem hafa í raun ekkert þjóðréttarlegt gildi hér á landi né í öðrum löndum, eins og hún er að hníga erlendis, finnst mér margt benda til þess miðað við þróun dóma hér á landi að við munum fylgja í vaxandi mæli fordæmi erlendra dómstóla. Þar eru menn farnir að dæma tilteknar framkvæmdir í mati á umhverfisáhrifum einungis vegna þess að handhafar framkvæmdarvalds í viðkomandi löndum hafa skrifað undir Ríó-yfirlýsinguna þrátt fyrir að hún hafi ekkert þjóðréttarlegt gildi í þessum löndum. Án efa mun þróunin verða sú að við sjáum slík dæmi innan lands. Þá er líklegt að miklar deilur spretti upp. Við eigum ekki að láta mál eins og deiluna um Fljótsdalsvirkjun endurtaka sig. Við eigum ekki að láta slík mál sem hægt er að ná samstöðu um rífa sundur þjóðarsálina með þeim afleiðingum að það mun vafalaust taka mörg ár, jafnvel áratugi, að ná saman þeim sárum aftur. Þess vegna held ég, herra forseti, að nauðsynlegt sé að Alþingi íhugi það ákaflega sterklega að afnema bráðabirgðaákvæði II í lögunum um mat á umhverfisáhrifum frá 1993.

Í þeim lögum sem eru í gildi er til að mynda í 1. mgr. 2. gr. laganna frá 1981, um raforkuver, Landsvirkjun veitt heimild til að stækka Hrauneyjarfossvirkjun í allt að 280 megavatta afl en í dag er sú virkjun einungis 210 megavött þannig að þarna munar 70 megavöttum. Auðvitað er alveg ljóst að til þess að ráðast í slíkar framkvæmdir mun það hafa veruleg áhrif á umhverfið þar í grennd. Ég vek eftirtekt á því að sömu lög heimila stækkun Sigölduvirkjunar um 50 megavött. Í 2. gr. sömu laga er veitt heimild til stækkunar á Blönduvirkjun og reyndar Villinganesvirkjun líka. Nú er það svo að heimildin til virkjunar og byggingar Villinganesvirkjunar hefur verið færð frá Landsvirkjun til Rafmagnsveitna ríkisins í félagi við aðila í héraði. Sú breyting hefur það væntanlega í för með sér að Villinganesvirkjun þarf að fara í mat á umhverfisáhrifum. Eigi að síður liggja fyrir heimildir fyrir stórvirkjunum sem geta ekki annað en haft veruleg áhrif á náttúru landsins. Miðað við málflutning, ekki bara stjórnarandstöðunnar, heldur stjórnarliða líka, held ég að hægt sé að fullyrða að það liggi í rauninni fyrir a.m.k. óskráð, kannski ósagt, en samt samþykki í þessum sölum fyrir því að viðhafa önnur vinnubrögð.

Ég nefni það líka að það eru heimildir í lögum um stórar jarðvarmavirkjanir, bæði til Hitaveitu Suðurnesja og Hitaveitu Reykjavíkur sem heitir nú reyndar Orkuveita Reykjavíkur. Ég bendi líka á það bara til að sýna hvernig í pottinn er búið að það eru til lög frá árunum 1947 sem teygja sig allar götur fram til 1956 þar sem Alþingi setti í fjórgang heimildir í lög um ný orkuver og nýjar orkuveitur. Þarna er um að ræða ýmsar smávirkjanir sem hafa í tímans rás að öllum líkindum fallið hjá götunni vegna þess að þær hafa ekki verið taldar hagkvæmar með nýrri tækni og hægt að afla orkunnar með öðrum hætti, en eigi að síður eru fyrir í lögum heimildir sem eru meira en 50 ára gamlar. Það kannski sýnir málið í hnotskurn. Fræðilega tel ég að hægt væri að ráðast í sumar þessar virkjanir með 50 ára gömlu heimildum án þess að fara í mat á umhverfisáhrifum ef þetta bráðabirgðaákvæði er virkt. Með nákvæmlega sömu rökum og ýmsir töldu að Fljótsdalsvirkjun ætti ekki að fara í þetta mat er hægt að segja að virkjanir sem eru með 53 ára gamlar heimildir ættu ekki heldur að gera það. Eini munurinn á þessu er að þessar eldri virkjanahugmyndir eru miklu smærri og miklu eldri. En prinsippið hlýtur að vera það sama. Þess vegna tel ég, herra forseti, að þingið ætti að ganga frá málinu í vetur í eitt skipti fyrir öll, loka þessu. Við höfum því lagt til, þessir þingmenn sem flytjum málið á þskj. 230, að bráðabirgðaákvæði II sé afnumið og til að kveða algjörlega skýrt að orði leggjum við til að allar þær virkjanir sem við teljum upp og sem heimild hafa í gildandi lögum og sem miða við túlkun ríkisstjórnarinnar ættu að falla undir bráðabirgðaákvæði II í lögunum frá 1993 verði lögum samkvæmt settar í mat á umhverfisáhrifum.

Herra forseti. Hér er um grundallaratriði að ræða, hér er um mál að ræða sem er angi af þeim meiði sem spratt upp og klauf þingheim og þjóðina fyrr í vetur. Þess vegna er ákaflega mikilvægt að heyra hvaða afstöðu ríkisstjórnin hefur til málsins. Nú er það auðvitað svo að hér er um að ræða 1. umr. og ekki beinlínis hægt að gera kröfu til þess að ríkisstjórnin hafi mótað með sér hvernig hún ætlar að taka á málinu. En miðað við það að hæstv. umhvrh. hefur komið að málinu og hefur haft ákaflega sterkar skoðanir og reyndar fleiri en eina held ég það væri afskaplega þarft að hæstv. ráðherra sýndi okkur örlítið inn í sál sína og léti uppi hvort hún teldi ekki að það væri fengur að því fyrir stjórn og stjórnarandstöðu að menn sameinuðust um að ganga frá málinu og loka þannig á að svipaðar deilur og við höfum þurft að ganga í gegnum á þessum vetri rísi upp aftur.