Mat á umhverfisáhrifum

Mánudaginn 14. febrúar 2000, kl. 16:44:42 (4280)

2000-02-14 16:44:42# 125. lþ. 62.14 fundur 197. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (undanþáguákvæði) frv., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 125. lþ.

[16:44]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Fá frv. sem liggja fyrir hinu háa Alþingi skipta í raun jafnmiklu máli og það sem er til umræðu. Eins og fram hefur komið í máli framsögumanns, hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, og í máli hv. þingkonu, Kolbrúnar Halldórsdóttur, er í raun mjög brýnt að frv. þetta fái afgreiðslu á hinu háa Alþingi og að komið verði í veg fyrir það að mistök sem voru gerð, og ég vil fullyrða að hafi verið mistök við afgreiðslu þáltill. um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun, geti endurtekið sig. Ég held að í raun hafi mjög fáir ef einhverjir í þessum sal gert sér grein fyrir því að svona margt lægi undir. Að við gætum leitað aftur til heimilda og laga meira en hálfa öld aftur í tímann.

[16:45]

Samkvæmt túlkun bráðabirgðaákvæðis við lög nr. 63/1993, um mat á umhverfisáhrifum, þá væru stórkostlegar framkvæmdir sem hafa í för með sér stórkostlegt jarðrask og náttúruspjöll, allar undanþegnar mati á umhverfisáhrifum.

Þetta frv. gefur hinu háa Alþingi tækifæri til þess að endurmeta stöðuna, tækifæri til þess að beita faglegum og framsýnum vinnubrögðum við það að meta virkjanaframkvæmdir og við það, eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir benti á, að forgangsraða innan rammaáætlunarinnar sem nú er unnið að því að hvernig á að vinna það verk ef ekki má nýta til þess tæki eins og mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna? Mér er spurn.

Eins og fram hefur komið þá voru stjórnvöldum í dag afhentir undirskriftalistar um 40 þúsund Íslendinga sem lýst hafa yfir stuðningi við að framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun fari í umhverfismat þrátt fyrir þá afgreiðslu sem málið fékk á hinu háa Alþingi fyrir jól. Það eru auðvitað engin tíðindi að sú krafa er uppi í samfélaginu. Hins vegar hlýtur það að teljast mjög markvert að sú krafa er alltaf að styrkjast. Við hljótum að spyrja okkur þegar landsmenn standa frammi fyrir þeim lista sem er í frv.: Hvernig bregst þjóðin við þegar hún les um að það megi stækka Hrauneyjafossvirkjun, Sigölduvirkjanir, Búrfellsvirkjun, Blönduvirkjun, virkja á Fljótsdal, stækka á Nesjavöllum o.fl. án þess að nokkuð þurfi að fara í mat á umhverfisáhrifum? Ég er ekki viss um að allir mundu sætta sig við slíkan framgangsmáta.

Að lokum þetta, herra forseti. Það er auðvitað fullkomlega óeðlilegt að virkjanaheimildir gildi um aldur og ævi eins og raun ber vitni og það er von mín að svo verði ekki áfram. Það er von mín að meiri hluti Alþingis taki á sig rögg og samþykki þetta frv. þannig að það verði gert að lögum og allur vafi verði tekinn af um mat á umhverfisáhrifum og um bráðabirgðaákvæðið. Það er líka von mín að stjórnarmeirihlutinn sýni það og sanni eins og stjórnarandstaðan hefur sýnt og sannað í störfum þessa þings í vetur að það er ekki hlutverk stjórnmálamanna að efna til illdeilna í samfélaginu. Það er hlutverk okkar að sameina þjóðina um þær framkvæmdir sem við náum saman um að fara í og skref í rétta átt er að samþykkja þetta frv. sem hér liggur fyrir.