Mat á umhverfisáhrifum

Mánudaginn 14. febrúar 2000, kl. 16:55:44 (4282)

2000-02-14 16:55:44# 125. lþ. 62.14 fundur 197. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (undanþáguákvæði) frv., Flm. ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 125. lþ.

[16:55]

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst alveg rosalegt að hlusta á þessa ræðu, sér í lagi niðurlagið. Ég gat ekki skilið hæstv. ráðherra öðruvísi en svo að hún væri að segja að jafnvel á meðan á nokkurra ára vinnu stæði við rammaáætlunina, þá mundu menn ekki ráðast í neinar af þessum virkjunum nema miklar byggðaástæður og efnahagsástæður kölluðu á það. Er virkilega verið að segja það hér af fulltrúa ríkisstjórnarinnar að hún sé bara alveg reiðubúin til þess að leggja í nýtt stríð? Það er t.d. auðvelt að halda því fram með einhverjum rökum að byggðaástæður og efnahagsástæður kalli á það að ráðist verði í miklu frekari virkjanir upp eftir Þjórsá og það mundi þá leiða til þess að Þjórsárver mundu að einhverju leyti skemmast þrátt fyrir það samkomulag sem oft var nú vitnað til frá 1981, milli Náttúruverndarráðs og framkvæmdarvaldsins um Eyjabakkana og Þjórsárver. En látum það vera, herra forseti. Ég get rætt það í seinni ræðum mínum, enda á ég tvær eftir.

Ég ætla hins vegar að reyna að dvelja við það sem mér fannst framan af ræðu hæstv. ráðherra vera merkilegast. Mín ræða gekk út á möguleikann á því að ná sátt um virkjunarstefnu milli stjórnar og stjórnarandstöðu, milli þeirra sem harðast vilja ganga fram í virkjunarmálum og hinna sem harðast vilja ganga fram í verndarmálum.

Hæstv. ráðherra sagði að hún gæti ekki fallist á það að með samþykkt þessa frv. yrði Fljótsdalsvirkjun látin í mat á umhverfisáhrifum. Hins vegar sagði hún að hún væri sammála meginhugsun frv. Get ég túlkað orð hennar þannig að hún væri reiðubúin til þess að ýta á eftir því að frv. yrði samþykkt að meginhluta til með þeirri undantekningu sem varðar Fljótsdalsvirkjun?