Mat á umhverfisáhrifum

Mánudaginn 14. febrúar 2000, kl. 16:57:37 (4283)

2000-02-14 16:57:37# 125. lþ. 62.14 fundur 197. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (undanþáguákvæði) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 125. lþ.

[16:57]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að menn gangi kannski of langt í að túlka orð mín þar sem ég get ekki sagt að ég fallist á frv. að undanskilinni Fljótsdalsvirkjun. Hins vegar er það alveg rétt að ég fellst á það meginsjónarmið að menn eigi að meta framkvæmdir á mælikvarða þess hvernig umhverfismálin eru í það og það sinnið þannig að ég styð það að setja einhvers konar sólarlagsákvæði inn í umhverfismatslögin og tel að við eigum að skoða það í endurskoðun laganna um umhverfismat.

Varðandi það að hér var spurt hvort ráðherrann ætlaði sér í einhvers konar nýtt stríð, þá er það alls ekki svo. En það er nú bara þannig að við t.d. vorum að taka hér í gegn Fljótsdalsvirkjun enn á ný á þeim þætti sem snýr m.a. að efnahagslegum þáttum og byggðaþróun og það voru mjög sterk rök í málinu. Auðvitað getur Alþingi tekið ákvarðanir hvenær sem er ef meirihlutavilji er fyrir því að fara í framkvæmdir. Ég er hins vegar ekki að segja að það verði en Alþingi hefur að sjálfsögðu fullar heimildir til þess að taka ákvarðanir um allt milli himins og jarðar ef meiri hluti er fyrir því. Þannig er bara þingræðið sem við búum við.

Það er ágætt að minna á það hér fyrst hv. þm. Össur Skarphéðinsson taldi að hér væri um grundvallaratriði að ræða sem fram kemur í þessu frv., að sá hinn sami notaði þetta bráðabirgðaákvæði til að smokra undan hluta af Fljótsdalslínu á sínum tíma --- mig minnir að það hafi verið gert 20. apríl 1994 --- til þess að komast undan umhverfismatinu á hluta af línunni.