Mat á umhverfisáhrifum

Mánudaginn 14. febrúar 2000, kl. 16:59:41 (4284)

2000-02-14 16:59:41# 125. lþ. 62.14 fundur 197. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (undanþáguákvæði) frv., Flm. ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 125. lþ.

[16:59]

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Ef ég ætti að ráðleggja hæstv. umhvrh. heilt þá mundi ég ráðleggja henni að hætta sér ekki of mikið út í umræður um Fljótsdalsvirkjun. Allir þekkja hennar þátt í því máli, sinnaskipti hennar, skoðanir hennar áður en hún varð ráðherra og hvernig þær breyttust sama dag og hún varð ráðherra. Það er engum til eftirbreytni og það er engum gert gagn með því að fara að rifja það upp og allra síst hæstv. ráðherra.

Hæstv. ráðherra talar um afskipti mín og segir að ég hafi smokrað einhverju undan. Herra forseti. Það var nákvæmlega þessi karl sem hér stendur sem hafði frumkvæði að því að setja allt það sem tengdist Fljótsdalsvirkjun í umhverfismat. Með hverju? Með því, herra forseti, að taka þessa línu sem hæstv. ráðherra nefnir hér og samþykkja og staðfesta þann hluta hennar sem var óumdeildur. En hvað var gert við ... (HjÁ: Það voru deilur um hann?) Þremur árum síðar, þegar Guðmundur Bjarnason klúðraði málinu og framkvæmd málsins, þá komu aðfinnslurnar. Og hvað var gert við afganginn af línunni sem miklar deilur stóðu um? Hann var settur í mat á umhverfisáhrifum þó, eins og mátti skilja af ræðu hæstv. ráðherra, að þess hefði ekki þurft miðað við skilning hennar á þessum lögum.

En ég vildi spyrja hæstv. ráðherra hvað hún á nákvæmlega við þegar hún segir að hún sé sammála meginhugsuninni í þessu frv.? Ég er ekki að fara fram á að hæstv. ráðherra lýsi því hér yfir að það eigi að samþykkja þetta frv. óbreytt. Ég kom hér meira að segja og spurði: Ef Fljótsdalsvirkjun er slakað út er þá stjórnarliðið reiðubúið til þess að taka höndum saman við okkur um meginstefnubreytinguna sem í hinu felst? Það er auðvitað okkar viðleitni til samkomulags í þessu máli og þar er náttúrlega ansi langt gengið miðað við deilur vetrarins.

Ég er ekki einu sinni að fara fram á að stjórnarliðið lýsi skoðun sinni á þessu núna en það væri gaman að heyra hana. Mér finnst hins vegar að hæstv. ráðherra verði að tala skýrar. Hún segir að hún sé sammála meginhugsuninni. En hún er samt sem áður ekki reiðubúin til þess að styðja frv. Í hvernig formi mundi hún vilja sjá þetta frv., hvernig á að setja meginhugsunina þar fram þannig að hún gæti nákvæmlega stutt það?