Mat á umhverfisáhrifum

Mánudaginn 14. febrúar 2000, kl. 17:01:54 (4285)

2000-02-14 17:01:54# 125. lþ. 62.14 fundur 197. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (undanþáguákvæði) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 125. lþ.

[17:01]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að snert hefur verið við viðkvæmri taug hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni. Það er alveg kristalstært að hv. þm. Össur Skarphéðinsson í hlutverki umhvrh. á sínum tíma smokraði undan hluta af Fljótsdalslínu frá umhverfismati þar sem það var ákveðið 20. apríl að mig minnir að setja framkvæmdina af stað en ekki annan hluta hennar. Það er eiginlega fráleitt að festa hluta af línunni en ekki annan af því að þetta er ein og sama línan. Það er því alveg dagljóst að hv. þm. Össur Skarphéðinsson notaði sér á sínum tíma bráðabirgðaákvæði til þess að smokra hluta Fljótsdalslínu undan umhverfismati. Það er ekki hægt að komast undan því.

Það er líka rangt sem kom fram hjá hv. þm. að skoðanir mínar hafi breyst í þessu máli. Viðtal sem var átt við mig á sínum tíma hefur verið rangtúlkað. Við fórum í gegnum flokksþing þar sem kom fram mjög skýr lína hvað flokkurinn vildi og við fórum í gegnum kosningar þar sem báðir stjórnarflokkarnir vildu halda áfram með málið af óbreyttum þunga. Það er því fullkominn hroki að halda því fram að ég hafi átt að styðja einhverja aðra stefnu en við höfðum í alþingiskosningunum og blekkja þannig kjósendur. Það er alrangt.

Varðandi spurningu hv. þm. um hvað hér væri átt við, þ.e. hvað ég ætti við með að samþykkja meginhugsunina í frv., þá er ég sammála þeirri meginhugsun að æskilegast er að mat fari fram nálægt þeim tímapunkti sem framkvæmdir fara í hönd, ég er sammála því. Mér finnst því eðlilegt að það sé einhvers konar sólarlagsákvæði í umhverfismatslögunum þannig að þessi gömlu leyfi fjari út og ég tel eðlilegt að menn skoði það í tengslum við endurskoðun á lögunum um mat á umhverfisáhrifum.