Mat á umhverfisáhrifum

Mánudaginn 14. febrúar 2000, kl. 17:09:54 (4289)

2000-02-14 17:09:54# 125. lþ. 62.14 fundur 197. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (undanþáguákvæði) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 125. lþ.

[17:09]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum að sjálfsögðu að fara út í rammaáætlunina til þess að reyna að ná betri sátt um þessi mál. Að sjálfsögðu erum við að reyna það og það er ekki meiningin að vinna þetta umfangsmikla verk og gera svo ekkert með það. Það er að sjálfsögðu ekki meiningin.

Varðandi spurninguna um hvernig þeir sem vinna að rammaáætluninni ættu að gera það með þessi gömlu leyfi liggjandi á borðinu er það svar mitt að ég tel að það eigi ekki að trufla þá vinnu neitt frekar. Ég held að það fólk sem vinnur að rammaáætluninni geti alveg unnið vinnu sína ágætlega óháð því að einhver leyfi liggi þar á bak við. Ég tel að menn skoði þessi mál frá öllum hliðum, sem ég taldi upp í stuttri ræðu minni áðan, og að þessi leyfi eigi ekki að trufla þá vinnu á neinn sérstakan hátt.

Varðandi Fljótsdalsvirkjunarumræðuna almennt vil ég ítreka það, hæstv. forseti, að við erum nýbúin að fara ítarlega í gegnum hana. Það er alveg ljóst að sum stjórnmálaöfl munu ekki sætta sig við þá niðurstöðu sem hér fékkst og það verður bara að vera svo. Ég á frekar von á því að menn muni ræða þetta mál áfram þó að við höfum tekið lýðræðislega ákvörðun. Það verður þá að vera svo en satt best að segja var ég að vonast til þess að menn gætu farið að horfa fram á veginn í þessu máli.