Mat á umhverfisáhrifum

Mánudaginn 14. febrúar 2000, kl. 17:36:52 (4292)

2000-02-14 17:36:52# 125. lþ. 62.14 fundur 197. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (undanþáguákvæði) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 125. lþ.

[17:36]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég hafði hugsað mér að bera fram spurningu til hæstv. umhvrh. Fer þeim brýnu erindum sem hæstv. ráðherra er að sinna í húsinu að ljúka eða er rétt að bíða með spurningarnar?

(Forseti (GÁS): Eins og forseti gat um áðan er hæstv. ráðherra hér í húsinu en þurfti að sinna brýnum viðfangsefnum sem hún hafði lofað. Hennar er að vænta á næstu mínútum þannig að ef hv. þm. getur notað þá kafla ræðu sinnar sem hann beinir ekki sérstaklega til ráðherra gæti fundurinn haldið áfram. En ef svo er ekki þá verður að grípa til annarra ráðstafana.)

Hæstv. forseti. Að vísu ætlaði ég ekki að hafa ræðu mína langa. Ég er einn af flutningsmönnum þessa frv. og tel að skynsamlegt væri af hálfu Alþingis að samþykkja frv. eins og það liggur fyrir. Ég get hins vegar viðurkennt að ekki er líklegt að meiri hluti Alþingis fallist á að Fljótsdalsvirkjun fari í umhverfismat eftir þá afgreiðslu sem það mál fékk fyrr á þessu þingi í vetur. Þess vegna tel ég að það væri kannski sáttahlutur í málinu, að öðru leyti en hvað varðar Fljótsdalsvirkjun, ef frv. yrði samþykkt frá hendi Alþingis og það væri að mínu viti bæði skynsamlegt og til sátta fallið í umhverfismálum ef það væri gert. Auk þess er ekki endilega víst að þeir hv. þm. sem bera ábyrgð á meiri hlutanum á Alþingi mundu kannski vera ánægðir með það ef eitthvert af þessum málum kæmi upp því að ekki stjórna þeir öllum þáttum hvað varðar þær virkjunarframkvæmdir sem hér hefur verið veitt leyfi til.

Svo ég nefni eitt dæmi þá á einungis einn aðili það virkjunarleyfi sem snýr að Borgarfirðinum, þ.e. Andakílsárvirkjun. Það eru Akurnesingar sem eiga hana. Þeir geta tekið ákvörðun um að ráðast í þá virkjun hvenær sem er. Þeir hafa leyfi til þess. Ætlar hv. Alþingi að banna það með lögum að þeir noti þetta leyfi þegar þeir hafa tekið þá ákvörðun að gera það? Mér finnst að það þurfi að bregðast við í þessum málum öllum áður en mál koma upp með einhverjum slíkum hætti. Ég reikna satt að segja ekki með því að Akurnesingar séu svo heillum horfnir að þeir birtist uppi í Borgarfirði með hamar og nagla og byrji að virkja þarna án þess að fram fari umhverfismat áður en til slíks kæmi í miðri Borgarfjarðarsveit. En þetta lýsir kannski svolítið vel því sem menn eru með í höndunum og hafa ekki verið tilbúnir að taka á, þ.e. að leyfi eins og það sem ég er hér að nefna skuli vera fyrir hendi á slíkum stað á landinu sem ég var að nefna. Mér finnst að það væri ömurlegur endir á meðferð þessa máls ef menn treysta sér ekki til þess að afgreiða það á hv. Alþingi í vetur.

Það sem fékk mig hins vegar til þess að taka til máls hér, hæstv. forseti, voru fyrst og fremst orð hæstv. ráðherra um rammaáætlunina sem verið er að vinna. Ég tel reyndar að þar séu mikil tíðindi á ferðinni. Ég hafði aldrei látið mér detta í hug að þessi rammaáætlun þyrfti að taka svona óskaplega langan tíma og ég tel að full ástæða sé til þess að um það verði rætt í fullri alvöru hvort ekki þurfi einhvern veginn að ná sáttum um einhvers konar bráðabirgðaástand áður en þessi rammaáætlun verður til, þ.e. ef hún á ekki að verða til fyrr en á næsta kjörtímabili eins og hæstv. ráðherra nefndi áðan, því að (KHG: Ráðherrann er komin.) --- ég fagna því að hæstv. ráðherra er hér mætt --- ég veit ekki betur en hér bíði mjög stórt málefni afgreiðslu.

Ég hef þóst skilja það þannig að forráðamenn Norsk Hydro t.d. vildu vita eitthvað um framtíðina, hvort og hvenær hægt verði að taka ákvarðanir um framtíð mjög stórs álvers í Reyðarfirði, 480 þúsund tonn. A.m.k. hafa fjölmargir á Íslandi þá skoðun að áður en ráðist verður í framkvæmdir, meira að segja við þennan fyrsta áfanga, þá vilji forráðamenn þessa fyrirtækis vita eitthvað um hvort nóg rafmagn verði fyrir hendi í miklu stærra álver, þ.e. 480 þúsund tonn. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra vegna þess að það að rammaáætlunin skuli ekki eiga að verða tilbúin fyrr en á næsta kjörtímabili vekur óneitanlega upp þá hugsun að það eigi að taka mjög stórar ákvarðanir í virkjunarmálum áður en rammaáætlunin verður til og þá er ég ekki að tala um þær ákvarðanir sem liggja fyrir og ekki þurfa á umhverfismati að halda heldur aðrar áætlanir. Ég spyr þess vegna hæstv. ráðherra: Telur hún að til greina komi að tekin verði ákvörðun, áður en rammaáætlun verður til, um stórar virkjanir sem hafa ekki verið teknar ákvarðanir um fram að þessu eins og t.d. Kárahnjúkavirkjun? Telur hæstv. ráðherra koma til greina að taka ákvörðun um Kárahnjúkavirkjun áður en rammaáætlun liggur fyrir?

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hve mikið er að marka rammaáætlun sem ekki mun taka tillit til virkjana af þessari stærð og þeirra virkjana sem leyfi liggja núna til fyrir? Og mér verður á að spyrja líka: Hve mikið er að marka hugmyndir manna um vetnissamfélagið á Íslandi og annað slíkt til þess að fullnægja orkuþörf okkar Íslendinga til framtíðar ef við ætlum ekki að skoða með þessari rammaáætlun hverjir eru bestu virkjunarkostirnir og hvaða virkjunarkosti við ætlum að halda til haga fyrir okkur til þess að nýta orku fyrir okkur sjálf, á fiskiskipaflotann eða til annarra þarfa í íslensku þjóðfélagi?

En fyrst og fremst vil ég fá skýrt svar við þessari spurningu, hæstv. forseti: Telur ráðherrann að það komi til greina að taka ákvarðanir um svo stóra virkjunarkosti sem Kárahnjúkavirkjun áður en rammaáætlun liggur fyrir?