Mat á umhverfisáhrifum

Mánudaginn 14. febrúar 2000, kl. 17:44:13 (4293)

2000-02-14 17:44:13# 125. lþ. 62.14 fundur 197. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (undanþáguákvæði) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 125. lþ.

[17:44]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel rammaáætlun þá sem verið er að hefja vinnslu á núna, Maður, nýting, náttúra, mjög mikilvæga og mjög mikilvægt að fara í þá vinnu til að reyna að ná sáttum. Ég teldi ekki rétt að fara í stærri virkjanir án þess að búið væri að ná sáttum um þá rammaáætlun eða afgreiða hana sem heild eða ná niðurstöðu í henni sem heild. Ég teldi það ekki æskilegt.

En ég vil ítreka það sem ég sagði áðan að að sjálfsögðu getur Alþingi tekið þær ákvarðanir sem það vill hverju sinni þannig að ekki er hægt að útiloka hér um aldur og ævi að teknar verði nýjar ákvarðanir. En að mínu mati er ekki meiningin með rammaáætluninni að setja í gang umfangsmikla vinnu og tína svo út einstakar virkjanir áður en við erum búin að klára þá áætlun vegna þess að það væri ekki í anda þess að ná sáttum um þessi virkjanaáform ef við höfum ekki svo til allt undir þegar við erum að ganga í þá vinnu. Ég tel því ekki æskilegt að taka stórar virkjanir út úr. En ég vil setja þann varnagla að að sjálfsögðu geta menn rætt það og Alþingi getur tekið aðrar ákvarðanir en þá yrði að skoða það alveg sérstaklega og það væri ekki í anda þeirrar vinnu sem ég sé fyrir mér gagnvart rammaáætlun ríkisstjórnarinnar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.