Mat á umhverfisáhrifum

Mánudaginn 14. febrúar 2000, kl. 18:12:13 (4304)

2000-02-14 18:12:13# 125. lþ. 62.14 fundur 197. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (undanþáguákvæði) frv., Flm. ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 125. lþ.

[18:12]

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var skondin ræða. Hver var það sem dró hið komandi frv. um mat á umhverfisáhrifum inn í þessa umræðu? Það var ekki sá sem hér stendur. Það var hæstv. ráðherra sem gat þess í umræðunni að í því frv. væri sólarlagsákvæði. Ég hafði ekki grænan grun um að slíkt ákvæði væri í farvatninu. Það var hún sem færði þetta hérna inn og það er ákaflega mikilvægt í ljósi þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram um störf sérfræðinganefndarinnar sem vinnur að rammaáætluninni að við vitum þessi tímamörk. Ef ekki, þá þurfum við í besta falli að vita hvenær þetta frv. kemur inn í þingið.

Herra forseti. Í annan stað kann vel að vera rétt hjá hæstv. ráðherra að vinna sérfræðinganefndarinnar skipti miklu máli. Hún skiptir klárlega máli í viðleitni hæstv. ráðherra og flokks hennar til þess að blekkja þjóðina í þeim efnum að það sé verið að reyna að ná einhverri sátt. Ég taldi að um alvarlega sáttaviðleitni væri að ræða með þessari vinnu. En það kemur bara í ljós að hæstv. ráðherra er ekki reiðubúin til þess að lýsa því yfir að ekki verði gefin frekari vilyrði fyrir virkjunum norðaustan Vatnajökuls meðan á starfstíma nefndarinnar stendur.

Það kemur líka í ljós að hæstv. ráðherra er ekki reiðubúin til að segja hér að menn muni ekki ráðast í stórvirkjanir á hálendinu sem heimildir eru fyrir í úreltum lögum. Þetta þykja mér ákaflega nöturlegar lyktir þessarar umræðu. Það kemur í ljós að ef hæstv. ráðherra talar fyrir munn ríkisstjórnarinnar þá hefur ríkisstjórnin ekkert lært af þessari deilu og er ekki reiðubúin til þess að taka í þá sáttarhönd sem stjórnarandstaðan réttir henni í þessu máli til þess að skapa heildstæða stefnu um virkjanir næstu ára.