Notkun íslenskra veðurhugtaka hjá Veðurstofu Íslands

Mánudaginn 14. febrúar 2000, kl. 18:53:58 (4314)

2000-02-14 18:53:58# 125. lþ. 62.15 fundur 233. mál: #A notkun íslenskra veðurhugtaka hjá Veðurstofu Íslands# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 125. lþ.

[18:53]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ef hv. þm. fer í gegnum söguna getur hann ekki fundin neinn hóp manna, enga stétt, sem hefur elskað málið jafnheitt og náttúrufræðingar. Veðurfræðingar eru náttúrufræðingar. Í þeirra hópi er hægt að benda á afburða íslenskumenn eins og til að mynda Jón Eyþórsson svo ég nefni einn. Ég gæti sjálfur talið upp fjölda náttúrufræðinga sem hafa lagt ríkulega af mörkun til þróunar málsins. Má ég nefna einn, herra forseti, Jónas Hallgrímsson sem skráði líka veðurlýsingar.

Herra forseti. Ég kem ekki hingað til þess að mótmæla þessari tillögu sem hér liggur fyrir. Ég sagði meira að segja að hún væri allrar athygli verð og ég mun gera mitt besta til þess að hún fái mjög vandaða umfjöllun í umhvn. Þar af leiðandi er ekki hægt að kalla mál mitt útúrsnúning. Ég var ekkert að reyna að snúa út úr fyrir hv. þingmanni. Ég hef gert það stundum áður og tekist bærilega og það væri ákaflega auðvelt mál að snúa út úr fyrir þessari tillögu. Ég geri það ekki. Hún er merkileg.

Ég kom einungis hér upp til þess að segja að mér finnst að hv. þm. eigi ekki að grípa til þeirra raka máli sínu til stuðnings að halda því fram að veðurfræðingar séu letingjar og af því stafi þessi breyting sem þeir hafi haft frumkvæði að.