Notkun íslenskra veðurhugtaka hjá Veðurstofu Íslands

Mánudaginn 14. febrúar 2000, kl. 18:56:18 (4316)

2000-02-14 18:56:18# 125. lþ. 62.15 fundur 233. mál: #A notkun íslenskra veðurhugtaka hjá Veðurstofu Íslands# þál., Flm. KPál
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 125. lþ.

[18:56]

Flm. (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég held að þegar menn velta þessu máli fyrir sér þá sé mjög auðvelt að taka undir það sem hv. þm. Halldór Blöndal sagði um það tómlæti sem þingheimur hefur sýnt máli af þessu tagi. Ég vil fagna því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur verið hér og tekið þátt í umræðunni. Hér í þessum sal hafa setið sumir mestu íslenskumenn þjóðarinnar, mestu hagyrðingar þjóðarinnar hafa verið á hv. Alþingi og í rauninni lagt mikið á sig til þess að viðhalda íslenskri tungu. Þess vegna er það í rauninni sorglegt ef það á að verða niðurstaða í þinginu núna þegar íslenskt mál ber á góma að þá sé áhuginn fokinn út í veður og vind og fari allur í að ræða um málefni sem er löngu löngu búið að afgreiða. Ég er ekki að segja að þau séu ekki merkileg. En eigi að síður mega menn ekki gleyma uppruna sínum og því mikla starfi og þeim mikilvæga arfi sem við hljótum að þurfa að halda upp á.

Ég rifjaði áðan upp margar vísur sem sýna hversu kjarnyrt okkar mál er með veðurfræðinni eða veðurmálinu inni í því. Við megum ekki fyrir nokkurn mun glutra þessu niður. Ég fagna því sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði áðan að hann mundi aðstoða við það að koma þessu máli hratt og vel í gegnum umhvn. Við sitjum þar báðir og ég bíð eftir því að við getum hafið þá vinnu strax.