Notkun íslenskra veðurhugtaka hjá Veðurstofu Íslands

Mánudaginn 14. febrúar 2000, kl. 18:58:21 (4317)

2000-02-14 18:58:21# 125. lþ. 62.15 fundur 233. mál: #A notkun íslenskra veðurhugtaka hjá Veðurstofu Íslands# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 125. lþ.

[18:58]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að geta þess að honum þykir vænt um að ég skuli hafa setið hér eftir til þess að hlýða á mál hans. Mér finnst þáltill. af þessu tagi vera merkileg og mér finnst að hún eigi fullan rétt á sér en verð þess auðvitað var að sumir aðrir þingmenn eru annarrar skoðunar.

Ég held að að baki henni felist virðing og hlýja gagnvart tungunni. Menn skynja að þarna kunni að vera að tapast ákveðin orð sem hafa unnið sér sess frá alda öðli í málfari landsmanna. Hvað sameinar landsmenn? Hvað er það sem sameinar þegna lítillar þjóðar? Það hefur verið þrennt. Það hefur auðvitað verið tungan. Það hefur verið hinn sögulegi arfur og landið og náttúran.

Nú rek ég augun í það að ýmsir sérfræðingar, t.d. við Háskóla Íslands, eru að velta því upp í tímaritum að þetta sé að breytast, við séum að tapa tengslum við hinn sögulega arf í æ ríkari mæli og eftir standi sameign okkar í náttúrunni og síðan tungunni. Ég virði það þegar þingmenn flytja mál af þessu tagi. En eigi að síður leyfir það mönnum ekki að koma fram með hvaða rök sem er. Það er ekki málstaðnum til framdráttar að halda því fram að þessi breyting stafi af leti og hálfgerðri hyskni opinberra starfsmanna. Ég held að allt annað hljóti að liggja því til grundvallar, herra forseti. Ég rifjaði það einungis upp sem ég hafði heyrt á öldum ljósvakans að skýringar, einhverra veðurfræðinga a.m.k., á þessum skiptum og ég rakti þær hér áðan. Menn vilja gera það sem út gengur frá Veðurstofunni skýrara og þeir telja að þessi orð hafi ekki sama skilning meðal þjóðarinnar og áður. Það er auðvitað slæmt ef svo er. Það kann vel að vera að þessir ágætu menn hafi rangt fyrir sér en það leyfir ekki að ganga að þeim og segja að þeir séu letingjar.