Notkun íslenskra veðurhugtaka hjá Veðurstofu Íslands

Mánudaginn 14. febrúar 2000, kl. 19:00:31 (4318)

2000-02-14 19:00:31# 125. lþ. 62.15 fundur 233. mál: #A notkun íslenskra veðurhugtaka hjá Veðurstofu Íslands# þál., Flm. KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 125. lþ.

[19:00]

Flm. (Kristján Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki haldið því fram að veðurfræðingar væru letingjar og ætla ekkert að gera það. Aftur á móti finnst mér þær skýringar fyrir þessum breytingum sem þeir hafa borið á borð ekki þess eðlis að þær réttlæti þær. Mig hefur undrað, eins og margan annan sem hefur áhuga á máli eins og þessu að frá þessu hálfgerðu Mekka íslenskrar tungu og frá því fjölskrúðuga liði sem hefur reynt að finna ný orð, að þeir skyldu láta sér detta það fyrstir í hug að fara að breyta svona grundvallaratriðum, málvenjum þjóðarinnar. Að því leyti til eru margir undrandi. Að margir þingmenn séu í rauninni sammála því að þetta fari svona fram finnst mér lýsa dálitlu um það hvað fólk er tilbúið til að breyta breytinganna vegna í dag. Það er nokkur tilhneiging að vera alltaf með því sem á að heita nýtt. Ég er hræddur um að margir þingmenn séu að falla í þá gryfjuna vegna þess að þetta er nýtt, þetta er nútímalegt. Kannski finnst unga fólkinu eitthvað meira spennandi að tala um metra en storm eða kalda og þá sé þetta bara gott mál að breyta þessu.

Ég held að við eigum að reyna að hafa dálítið vit fyrir þessum kollegum okkar og þjóðinni og sýna þeim fram á hvað þetta getur verið skaðlegt þegar til lengri tíma er litið. Ég fagna að sjálfsögðu öllum þeim sem vilja leggja þessu lið og sérstaklega mönnum eins og hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og meðflutningsmönnum mínum sem allir eru mjög virtir menn.