Skólagjöld í framhaldsnámi í viðskipta- og hagfræði við Háskóla Íslands

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 13:47:05 (4323)

2000-02-15 13:47:05# 125. lþ. 63.94 fundur 314#B skólagjöld í framhaldsnámi í viðskipta- og hagfræði við Háskóla Íslands# (umræður utan dagskrár), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[13:47]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég þakka hv. 3. þm. Norðurl. e. fyrir að vekja máls á því máli sem er til umræðu.

Innritunargjöld hafa reyndar margoft verið til umræðu í þessari stofnun. Ég minnist þess að í fyrra eyddum við heilum degi í karp um það hvort ættu að vera innritunargjöld í Háskóla Íslands eða ekki og við vorum jafnvel að ræða það hvort innritunargjöldin ættu að vera 26.500 kr. ef ég man rétt eða 21.500 kr. Þessu gátum við velt fyrir okkur heilan dag. Þegar við vorum að reyna að setja þetta í samhengi við önnur verðmæti í landinu varð oft og tíðum fátt um svör.

Við megum ekki gleyma því að menntun er afar dýrmæt og ég held að óhætt sé að segja að Háskóli Íslands og reyndar fleiri háskólar í landinu hafa verið að bæta sig hvað varðar fjölbreytni og þess háttar og Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands býður upp á fjölmörg námskeið og margt sem er afar spennandi. Símenntun er nauðsynlegur þáttur í lífi hvers manns og eins og komið hefur fram hjá hæstv. menntmrh. hefur ekki fengist staðfest á hvern hátt Háskóli Íslands ætlar sér að útfæra þá menntun sem hér er til umræðu. Ég vil vekja máls á því að t.d. í Samvinnuháskólanum í Bifröst greiðir það unga fólk sem þar stundar nám mjög mikið fyrir þá menntun en það fólk sem ég hef rætt við þar talar um að því finnst það fá mjög mikið fyrir peningana. Það er mjög nauðsynlegt að ræða þessi mál en eins og fram hefur komið hafa ekki komið skýr svör frá Háskóla Íslands um þetta.