Höfundalög

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 14:05:46 (4331)

2000-02-15 14:05:46# 125. lþ. 63.7 fundur 325. mál: #A höfundalög# (EES-reglur) frv. 60/2000, menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[14:05]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég flyt frv. til laga um breyting á höfundalögum, nr. 73/1972, með síðari breytingum. Frv. miðar fyrst og fremst að því að samræma íslenska höfundalöggjöf efni tilskipana Evrópusambandsins á sviði höfundaréttar, einkum tilskipun Evrópusambandsins um lögverndun gagnagrunna frá 11. mars 1996.

Einnig er í frv. kveðið á um aðlögun íslenskra laga að tilteknum ákvæðum tilskipunar Evrópusambandsins um leigu, útlánsrétt o.s.frv. frá 19. nóvember 1992. Framangreindar gerðir eru orðnar hluti af EES-samningnum.

Þá er lagt til að gerðar verði örfáar breytingar á ákvæðum höfundalaga sem taka mið af ákvæðum tilskipunar ráðsins um vernd tölvuforrita frá 14. maí 1991, sbr. ákvæði laga nr. 57/1992 og 145/1996, um breytingar á höfundalögum.

Helsta nýmæli sem kveðið er á um í frv. er að lögfest verði í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins 96/9 ákvæði um lögverndun gagnagrunna. Lögvernd gagnagrunna felst samkvæmt frv. í vernd á niðurröðun efnis og samsetningar sem er að finna í gagnagrunnum. Tekur verndin samkvæmt frv. bæði til rafrænna og hefðbundinna gagnagrunna, þ.e. safna sjálfstæðra verka, upplýsinga eða efnisatriða sem komið er fyrir með skipulögðum og kerfisbundnum hætti og eru aðgengileg með rafrænum aðferðum eða á annan hátt.

Gert er ráð fyrir að vernd gagnagrunna sé tvíþætt. Annars vegar er framleiðendum þeirra veittur einkaréttur til eintakagerðar af gagnagrunninum og er það helsta nýmæli frv. Tekið er fram að vernd einkaréttar framleiðenda taki til eintakagerðar eða birtingar verks í heild eða að verulegum hluta. Verndin nær einnig til endurtekins eða kerfisbundins útdráttar eða endurnýtingar óverulegs hluta gagnagrunns ef gengið er óhæfilega gegn réttmætum hagsmunum framleiðenda.

Nútímatækni auðveldar, herra forseti, óheimila notkun gagnagrunna, þar með afritun stórs hluta efnis gagnagrunns og samsetningu þess í nýjan grunn fyrir aðeins brot af þeirri fjárhæð sem kostað var til gerðar hins upprunalega gagnagrunns. Framleiðendur gagnagrunna leggja oft fram mikla vinnu og fjármagn við gerð slíkra heimildabanka. Þess vegna er þeim veitt þessi sérstaka vernd sem á um leið að hvetja til þess að gagnagrunnar séu gerðir. Fullnægjandi réttarvernd er forsenda þess að unnt sé að efla nýsköpun og þekkingariðnað á þessu sviði.

Rétt er að taka fram að vernd sú sem framleiðendum er veitt með tilskipuninni hefur ekki áhrif á þau réttindi sem kunna að vera fyrir hendi á einstökum hugverkum sem er að finna í gagnagrunninum. Tilgangur lögverndunar sem framleiðendum gagnagrunna er veitt er að tryggja þeim hæfilegt endurgjald fyrir afnot annarra aðila að gagnagrunnum á verndartímabilinu sem er 15 ár. Hér er um að ræða svokallaðan ,,sui generis`` rétt, óháðan höfundarétti.

Hinn þáttur lögverndunar gagnagrunna lýtur að réttindum höfunda gagnagrunnanna sjálfra, enda sé fullnægt skilyrðum um frumleik og skapandi vinnu varðandi samsetningu og niðurröðun efnis í gagnagrunninn.

Gagnagrunnur kann að geyma höfundaréttarlega varið efni sem að sjálfsögðu er verndað samkvæmt almennum rétti höfundaréttar. Hvorugur rétturinn, þ.e. ,,sui generis`` réttur útgefenda eða réttur höfunda, útilokar hinn, þannig að framleiðandi gagnagrunns þarf að tryggja sér höfundaréttinn á einstökum hugverkum með framsali, ef til staðar er, til að tryggja sér algjöran umráðarétt yfir verkinu á verndartíma framleiðendaréttarins. Slíkt framsal kann þó að felast í vinnusambandi höfunda og framleiðenda við gerð gagnagrunnsins samkvæmt almennum sjónarmiðum höfundaréttar um framsal réttarins í vinnusambandi.

Ákvæði frv. á á engan hátt að raska þeirri réttarvernd sem fjallað er um í lögum nr. 139/1998, um gagnagrunna á heilbrigðissviði, og hefur ekki áhrif á rekstrarleyfi sem veitt hefur verið á grundvelli þeirra laga.

Herra forseti. Í frv. er enn fremur lagt til að ákvæði íslenskra höfundalaga verði aðlöguð ákvæðum 4. gr., sbr. 8. tölul. 13. gr. tilskipunar Evrópusambandsins um leigu og útlánsrétt o.s.frv. frá 19. nóvember 1992 þannig að lögfest er óafsalanlegt gjald til rétthafa vegna útleigu verka.

Í frv. er einnig lagt til að ákvæði um vernd tölvuforrita sem fjallað var um við breytingar á höfundalögum á árunum 1992 og 1996 verði lagfærð þannig að rýmkaðar séu heimildir sem eigendum tölvuforrita eru veittar til eftirgerðar svo að þær nái einnig til þeirra sem hafa rétt til notkunar þeirra. Að öðru leyti er ekki um frekari breytingar á vernd tölvuforrita að ræða.

Að öðru leyti miðar efni frv. að því að leiðrétta misfellur við setningu laga nr. 145/1996 og lagfæra gjaldtökuheimildir höfundalaga vegna upptöku verka þeirra á hljóð- eða myndbönd til einkanota. Gjörbreytt upptökutækni vegna stafrænnar upptöku og dreifingar verka knýr á um að ákvæðum höfundalaganna varðandi gjöld fyrir upptöku verka til einkanota verði breytt hið fyrsta. Er þegar hafin vinna að undirbúningi að breytingum á höfundalögunum sem taka mið af breyttri upptökutækni.

Nú eru til umfjöllunar innan Evrópusambandsins drög að tilskipun frá framkvæmdastjórn sambandsins um höfundarétt í upplýsingasamfélaginu og er fyrirsjáanlegt að nokkrar breytingar þarf að gera á íslenskri höfundalöggjöf þegar sú tilskipun hefur verið samþykkt innan Evrópusambandsins. Endurskoðunarnefnd höfundalaga hefur unnið að gerð frv. Við endurskoðun höfundalaga hefur verið lögð megináhersla á að samræma íslenska höfundalöggjöf rétti Evrópusambandsins. Verði frv. þetta að lögum hefur íslensk höfundalöggjöf verið samræmd öllum settum tilskipunum Evrópusambandsins á þessu sviði.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.