Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 15:15:41 (4338)

2000-02-15 15:15:41# 125. lþ. 63.10 fundur 292. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[15:15]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég tek til máls til að leggja áherslu á hve mikilsvert það er að Alþingi samþykki það frv. sem hér liggur fyrir á þessu þingi vegna þess að hér er um mál að ræða sem margir hafa mikinn áhuga á og íþróttagrein sem margir vilja stunda. Það hlýtur að skipta máli að ekki sé gert upp á milli íþróttagreina og ástæða er til að minna á 1. gr. íþróttalaganna, en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Í lögum þessum merkja íþróttir hvers konar líkamlega þjálfun er stefnir að því að auka líkamlegt og andlegt atgervi, heilbrigði og hreysti.``

Hér er um ólympíska hnefaleika að ræða en við ætlum okkur það að gera ekki upp á milli íþróttagreina. Við vitum að hér eru stundaðar ýmsar sjálfsvarnaríþróttir og bardaga\-íþróttir sem menn hafa ekki séð ástæðu til að banna, en þeir sem þekkja til þessara íþróttagreina segja að þær líkist sumar hverjar mjög mikið ólympískum hnefaleikum og sé nú ekki allur eðlismunurinn á þeim. Einnig er rétt að minna á það eins og hefur komið fram hjá hv. þm. sem áður hafa talað að ekki eru nokkur rök til þess að mismuna með tilliti til t.d. slysatíðni.

Ég vil einnig minna á það að landsfundur Sjálfstfl. samþykkti á síðasta landsfundi sínum að skora á stjórnvöld að aflétta banni frá 1956 við iðkun og sýningu á ólympískum hnefaleikum. Landsfundurinn telur að það sé í valdi hvers einstaklings að velja og hafna hvaða íþrótt hann stundar hverju sinni. Undir þetta hljótum við alþingismenn að geta tekið heils hugar. Ekki eru nokkur einustu efnisleg rök fyrir því að gera upp á milli þessara íþróttagreina. Ég vil taka fram að ég er sjálf afskaplega mikið á móti ofbeldi og í mínum uppeldisaðferðum hafði ég tvær reglur og önnur var sú að ofbeldi var bannað. En hér er um ólympíska íþróttagrein að ræða og hún lýtur reglum Alþjóðaólympíusambandsins og ég get ekki séð að ég hafi nokkur rök til þess að banna t.d. börnum mínum að stunda þá íþróttagrein frekar en aðrar þær greinar sem Alþjóðaólympíusambandið stendur fyrir. Lögin eru frá 1956 og eru auðvitað barn síns tíma. Um forræðishyggju er að ræða sem ekki á lengur við í samfélagi okkar. Þegar litið er á texta frv. hlýtur það að vera honum sérstaklega til gildis sú skemmtilega orðnotkun sem þar er og ég bendi á orðið hnefaleiksglófi. Væntanlega nota menn orðið boxhanski nú til dags, en ég vil hvetja íþróttamenn til þess að nota þetta ágæta íslenska orð fyrir þessi tæki sem þeir væntanlega geta nú farið að nota án þess að teljast sakamenn.

Ég vil sem ein af flm. frv. ítreka mikilvægi þess að samþykkja frv. á þessu þingi þannig að þeir sem hafa áhuga á að stunda íþróttagreinina og þeir sem hafa áhuga á að horfa á hana í íslensku samfélagi geti stundað þessa íþróttagrein án þess að teljast sakamenn.