Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 15:43:03 (4344)

2000-02-15 15:43:03# 125. lþ. 63.10 fundur 292. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[15:43]

Ásta Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Katrín Fjeldsted féll í sömu gryfju og kollegar hennar víða um lönd með því að jafna saman ólympískum hnefaleikum og atvinnumannahnefaleikum. Það að nefna Cassius Clay, öðru nafni Múhameð Alí, í því samhengi bendir til þessa ruglings. Það er ekki hægt að bera þessar tvær íþróttir saman að öðru leyti en því að ákveðin grundvallaratriði í hreyfingum eru þau sömu og báðar heita þær hnefaleikar. Það eru allt aðrar kröfur gerðar til öryggis og umbúnaðar í þessari grein sem heitir ólympískir hnefaleikar eða áhugamannahnefaleikar. Allar reglur miða að því að tryggja öryggi iðkenda íþróttarinnar. Margar reglur, eins og ég sagði áðan í ræðu minni, eru þess eðlis að sé brotið gegn öryggi þeirra sem iðka íþróttina þá er viðkomandi keppandi dæmdur úr leik eftir þrjú brot. Þessi íþrótt, ólympískir hnefaleikar, gengur út á leikni hnefaleikara til að fara inn fyrir varnir andstæðingsins. Það er lagt til grundvallar í stigagjöf eins og ég sagði áðan. Markmiðið er ekki að slá einstaklinginn niður og þegar blóð rennur, þá er leikur stoppaður. Það er ólíkt því sem gerist í atvinnumannahnefaleikum.