Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 15:48:14 (4348)

2000-02-15 15:48:14# 125. lþ. 63.10 fundur 292. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[15:48]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Lokaorð hv. þm. tek ég að sjálfsögðu til mín vegna þess að eftir höfðinu dansa limirnir og mínir limir hafa því miður ekki allir dansað eins og ég hefði viljað. Það verður þó að segjast eins og er að afleiðing af íþróttameiðslum er höfuðástæða þess að limirnir hafa ekki ætíð dansað eftir höfðinu. Og það var ekki vegna þess að ég væri að stunda ólympíska hnefaleika heldur var ég þegar ég fyrst fór úr axlarlið að stunda þá saklausu íþrótt badminton. Þannig að víða má ná áverkum á líkama sinn. (KHG: Banna badminton.)

Herra forseti. Það sem kallaði mig þó hér í andsvar við hv. þm. var tenging banns við ólympískum henfaleikum við einelti í skólum. Mér þótti hv. þm. fara allverulega út fyrir eðlilega röksemdafærslu þegar hv. þm. var að færa rök fyrir því að það bæri að banna ólympíska hnefaleika. Það hlýtur þá að liggja fyrir klárt og kvitt að á Íslandi, í því landi einu sem ólympískir hnefaleikar eru bannaðir, sé einelti minna í skólum. Því miður hef ég ekkert séð sem bendir til þess að einelti sé minna hjá okkur en í öðrum ríkjum. Betra að svo væri og það væru þá vissulega rök í málinu.

Herra forseti. Ég held að hv. þm. hafi seilst helst til langt í röksemdafærslu sinni fyrir því að banna ólympíska hnefaleika. Það er í raun og veru ekkert sem fram hefur komið í máli hv. þm. sem sannfærir mig um það að taka beri þessa íþróttagrein eina út úr þeim íþróttagreinum sem keppt er í á Ólympíuleikum og banna á Íslandi.