Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 15:51:00 (4350)

2000-02-15 15:51:00# 125. lþ. 63.10 fundur 292. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[15:51]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir það með hv. þm. að það er ekki á eineltið bætandi. En það sem ég var að vekja athygli á er að þarna er að mínu mati ekkert samhengi á milli.

Ég tel að þeir sem vilja banna ólympíska hnefaleika verði að færa fyrir því haldbær rök og þeir verði þá að sýna fram á að það beri að vera einhver viðmiðunarstuðull, einhver hættustuðull sem við miðum við varðandi íþróttir og gerðar séu þá rannsóknir og færð fyrir því rök að ein íþrótt sé annarri hættulegri og þess vegna beri að banna hana. Ég held hins vegar að það sé miklu eðlilegra og einfaldara að taka það viðmið sem hér er lagt til, þ.e. að miða við þær íþróttagreinar sem leyfðar eru á Ólympíuleikum, að við séum ekki að skera okkur úr með þessa einu íþróttagrein og við eigum að leyfa hana vegna þess að nóg er nú af bönnunum. Það verður að segjast eins og er að það verður að hafa miklu sterkari rök fyrir slíku banni en fyrir því í raun og veru að leyfa hana.