Starfsheiti landslagshönnuða

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 16:25:13 (4360)

2000-02-15 16:25:13# 125. lþ. 63.6 fundur 21. mál: #A starfsheiti landslagshönnuða# (landslagsarkitektar) frv. 4/2000, KolH
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[16:25]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það kann að koma þingmönnum á óvart að nafn mitt skuli ritað undir þetta nál. frá iðnn. því eins og kunnugt er á ég ekki sæti í nefndinni. En það er rétt að fram komi við umræðuna þar sem þessu nál. er fylgt úr hlaði, að hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson sem er fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í iðnn. vék sæti í þessu máli þegar það var afgreitt frá nefndinni og ég kom inn í hans stað.

Nú ber að viðurkenna að ég kom að þessu máli með talsverðar efasemdir. En ég verð að segja eins og er að eftir að hafa kynnt mér þetta nokkuð vel og skoðað þær röksemdafærslur sem lágu fyrir í gögnum nefndarinnar, þá sýndist mér vera um réttlætismál að ræða, enda engu breytt í ábyrgð arkitekta er lýtur að þeirra starfi í sambandi við byggingar og skipulag. Ábyrgð þeirra er söm og áður. Þetta er einungis um nafnabreytingar að ræða og þegar til þess er litið, þá sýnist mér þetta vera eðlilegt réttlætismál, enda var Arkitektafélagið búið að samþykkja það að landslagshönnuðir gætu kallað sig landslagsarkitekta en eftir því sem mér hefur best skilist hafi farið að renna tvær grímur á fólk í Arkitektafélaginu þegar ljóst varð að fleiri sléttir sæktu jafnfast að geta notað starfsheitið arkitekt, skeytt því við sínar greinar, þ.e. húsgagnaarkitektar og innanhúsarkitektar. En þar sem forskeytunum er haldið föstum við þessi starfsheiti, þá sé ég ekki að það sé neitt sem mælir gegn því að þessar þrjár stéttir fái að kalla sig arkitekta, þ.e. landslagsarkitektar, húsgagnaarkitektar og innanhússarkitektar, enda eru hefðir fyrir því í þeim útlendu tungumálum sem við þekkjum best til.