Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 17:08:54 (4371)

2000-02-15 17:08:54# 125. lþ. 63.11 fundur 280. mál: #A persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga# (heildarlög) frv. 77/2000, dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[17:08]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Hæstv. forseti. Eins og ég vék að í framsöguræðu minni er ætlunin með frv. þessu að lögtaka efni tilskipunar Evrópusambandsins frá 24. okt. 1995 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga. Þetta er gert í samræmi við ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 25. júní sl. um að fella tilskipunina inn í EES-samninginn.

Að baki umræddri tilskipun Evrópusambandsins býr það markmið að tryggja samræmdar reglur og samræmda persónuvernd í öllum aðildarríkjum sambandsins. Innan þess ramma sem tilskipunin sjálf setur er einstökum ríkjum heimilt að setja strangari reglur sem tryggja meiri vernd en leiðir af ákvæðum tilskipunarinnar. Ræðst það af einstökum ákvæðum tilskipunarinnar að hvaða marki heimilt er í löggjöf einstakra ríkja að mæla fyrir um meiri vernd en tilskipunin sjálf gerir ráð fyrir. Aftur á móti kemur ótvírætt fram í 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar bann við því að aðildarríkin setji reglur um persónuvernd sem banni eða takmarki frjálsan flutning persónuupplýsinga milli aðildarríkjanna.

Í umræðu um þetta frv. hefur komið fram að á síðasta þingi var dreift í heilbr.- og trn. drögum að þessu frv. þegar nefndin fjallaði um frv. til laga um gagnagrunn á heilbrigðissviði. Ég vil leggja ríka áherslu á að þar var aðeins um drög að ræða en ekki fullbúið frv. Þessi drög hafa í nokkrum atriðum tekið breytingum sem miðuðu að því að samræma frv. við áðurgreinda tilskipun ESB enda, eins og ég vék að áður, geta aðildarríkin ekki mælt fyrir um aukna vernd nema slíka heimild sé að finna í tilskipuninni sjálfri.

Hins vegar er það rangt sem komið hefur fram í umræðum fyrr hér á hinu háa Alþingi að drögum að frv. hafi verið breytt til að laga það að efni frv. um gagnagrunn á heilbrigðissviði. Hér verður einnig að minna á að til umræðu eru almenn lög um persónuvernd en lög um gagnagrunn á heilbrigðissviði eru sérlög og ganga því framar almennum lögum.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson beindi til mín spurningum sem ég ætla að bregðast við. Hann spurði m.a. um muninn á leyfi og tilkynningu og hvers vegna tilkynningarleiðin sé farin í frv. Segja má að leyfi feli í sér óþarfa skriffinnsku í þessu sambandi. Tilkynningar einstaklinga skapa einmitt frekar tækifæri fyrir stjórnvöld til að bregðast við aðstæðum þar sem persónuvernd er raunverulega ógnað. Þessi rök koma m.a. fram í greinargerð frv. á bls. 37--39.

Þá var líka spurt hvort 71. gr. stjórnarskrárinnar taki til upplýsinga um félagsleg vandamál og fjárhagsmálefni. Svarið er ótvírætt játandi enda er um að ræða persónuupplýsingar þótt þær séu ekki skilgreindar í frv. sem viðkvæmar persónuupplýsingar. Þannig gildir t.d. 7. gr. frv. um þessar upplýsingar en þar segir svo, með leyfi virðulegs forseta:

,,Við meðferð persónuupplýsinga skal þess gætt að þær séu:

1. unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að öll meðferð þeirra sé í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga,

2. fengnar í yfirlýstum, skýrum, málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi, frekari vinnsla í sagnfræðilegum, tölfræðilegum eða vísindalegum tilgangi telst ekki ósamrýmanleg að því tilskildu að viðeigandi öryggis sé gætt,

3. nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar,

4. áreiðanlegar og uppfærðar eftir þörfum, persónuupplýsingar sem eru óáreiðanlegar eða ófullkomnar, miðað við tilgang vinnslu þeirra, skal afmá eða leiðrétta,

5. varðveittar í því formi að ekki sé unnt að bera kennsl á skráða aðila lengur en þörf krefur miðað við tilgang vinnslu.``

Þetta eru miklar kröfur sem koma fram í 7. gr. frv. og þær gilda um allar persónuupplýsingar, ekki bara þær viðkvæmu.

Hæstv. forseti. Að gefnu tilefni sé ég ástæðu til að víkja nokkrum orðum að breytingum sem orðið hafa á frv. frá því að drög þess voru kynnt í heilbr.- og trn. Í 8. tölulið 2. gr. er hugtakið ,,viðkvæmar persónuupplýsingar`` skilgreint. Það ákvæði tekur mið af 8. gr. tilskipunarinnar. Í fyrri drögum að frv. var sérstaklega tilgreint að upplýsingar um einkafjárhag væru viðkvæmar persónuupplýsingar. Þetta er ekki í samræmi við 8. gr. tilskipunarinnar og var því fellt út úr frv.

[17:15]

Í 8. tölulið 2. gr. frv. var einnig tilgreint í upphaflegum drögum að upplýsingar um félagsleg vandamál og önnur einkalífsatriði sem sanngjarnt er og eðlilegt að færu leynt teldust til viðkvæmra persónuupplýsinga. Ekkert slíkt ákvæði er í 8. gr. tilskipunarinnar og því var þetta ákvæði einnig fellt úr.

Þótt þessi atriði hafi verið felld út úr frv. vil ég vekja athygli á því að upplýsingar um einkafjárhag og félagsleg vandamál eru vitanlega persónuupplýsingar eftir sem áður. Þannig verður vinnsla slíkra upplýsinga að fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru í 7. og 8. gr. frv. Einnig vil ég vísa til þess sem kemur fram á bls. 47 í greinargerð með frv. Þar segir að ljóst sé að oft geti aðrar upplýsingar en þær sem taldar eru upp í frv. verið viðkvæmar fyrir hlutaðeigandi. Í framkvæmd verður að taka tillit til slíks jafnvel þótt ekki sé um að ræða upplýsingar sem teljast viðkvæmar samkvæmt upptalningu í 8. tölulið 2. gr. frv. Á hinn bóginn verðum við að gæta þess að frávik frá tilskipuninni að þessu leyti eiga sér ekki stoð í henni. Slíkt yrði væntanlega talið fela í sér brot á þjóðréttarlegum skuldbindingum landsins.

Eftir að drög að þessu frv. voru kynnt heilbr.- og trn. á síðasta þingi hafa einnig verið gerðar breytingar á 7. og 8. gr. frv. Í þessum breytingum fólst að lagt er til að ákvæði 6. og 7. gr. tilskipunarinnar verði lögfest óbreytt eins og þau ákvæði koma fyrir í tilskipuninni. Þetta er til þess fallið að tryggja réttareiningu milli Íslands og samstarfsríkja landsins á grundvelli EES-samningsins.

Hæstv. forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu breytingum sem orðið hafa á frv. en vísa um önnur atriði til þess sem fram kom í framsöguræðu minni og í umræðu um frv. í síðustu viku. Hér er um mikilvægt frv. að ræða sem snýr m.a. að bættu réttaröryggi fólks. Allshn. mun væntanlega taka það til vandlegrar skoðunar. Ég vænti þess hins vegar að þetta mál fái góðar móttökur hér á þinginu eftir að hv. allshn. hefur skoðað það og lagt fram nál. sitt.