Eftirlit með útlendingum

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 17:21:53 (4374)

2000-02-15 17:21:53# 125. lþ. 63.12 fundur 328. mál: #A eftirlit með útlendingum# frv. 25/2000, dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[17:21]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á lögum um eftirlit með útlendingum, nr. 45/1965. Með frv. eru lagðar til nauðsynlegar breytingar á lögunum vegna fyrirhugaðrar þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu og er það eitt af fleiri lagafrv. sem flutt eru af þessu tilefni.

Innan Schengen-samstarfsins er að finna ítarlegar reglur á sviði útlendingalöggjafar. Hér má helst nefna að samstarfið felur í sér afnám persónueftirlits á innri landamærum og samræmt eftirlit á ytri landamærum auk þess sem gert er ráð fyrir samvinnu milli ríkjanna um vegabréfsáritanir sem m.a. felur í sér að samræmd áritun gildi á öllu Schengen-svæðinu. Þessar reglur er einkum að finna í II. bálki Schengen-samningsins og miðar frv. að því að samræma lög um eftirlit með útlendingum þessum þáttum samstarfsins. Til frekari glöggvunar er þessi bálkur Schengen-samningsins birtur sem fylgiskjal með frv.

Herra forseti. Ég mun nú gera nánari grein fyrir efni frv. í einstökum atriðum. Í 1. gr. frv. er lagt til að lögfestar verði afdráttarlausari reglur um skyldu útlendinga til að bera vegabréf og hafa vegabréfsáritun við komu til landsins. Einnig er lagt til í 4. gr. frv. að heimilt verði að semja við önnur ríki sem taka þátt í Schengen-samstarfinu um að sendiráð þeirra eða ræðismenn gefi út vegabréfsáritanir fyrir hönd Íslands, en gert er ráð fyrir þessari tilhögun í Schengen-samstarfinu.

Í öðru lagi er í 2. gr. frv. lagt til að reglur um landamæraeftirlit verði lagaðar að Schengen-samstarfinu. Allir sem koma frá eða fara til ríkja sem ekki taka þátt í Schengen-samstarfinu verði að sæta persónueftirliti á landamærum. Aftur á móti verður persónueftirlit fellt niður þegar farið er um innri landamæri Schengen-svæðisins. Einnig er lagt til að koma til landsins og för þaðan til ríkja sem ekki taka þátt í Schengen-samstarfinu verði að fara fram á fyrir fram ákveðnum stöðum og afgreiðslutímum. Þetta er í samræmi við 3. gr. Schengen-samningsins.

Í þriðja lagi er lagt í 5. og 6. gr. að reglur um heimild útlendinga til að koma til landsins og dvelja hér á landi verði lagaðar að Schengen-reglum. Þetta felur m.a. í sér að útlendingi verði meinuð landganga geti hann ekki framvísað gögnum til staðfestingar á tilgangi dvalar og aðstæðum meðan á dvöl stendur. Einnig, ef hann er skráður í Schengen-upplýsingakerfið, í því skyni að honum verði meinuð landganga ef hann telst ógna allherjarreglu, þjóðaröryggi, alþjóðasamskiptum ríkisins eða annars Schengen-ríkis.

Í fjórða lagi er í 7. gr. frv. lagt til að lögfestar verði reglur um ábyrgð flytjanda þegar útlendingi er meinuð landganga. Þetta felur í sér að flytjanda ber við þessar aðstæður að taka útlending á ný um borð eða flytja úr landi á annan hátt eða greiða kostnað sem hið opinbera hefur af því að færa útlendinginn úr landi. Þá er í 8. gr. lagt til að það varði sektum að flytja útlending til landsins án þess að hann hafi fullnægjandi ferðaskilríki. Í því ákvæði er einnig að finna nauðsynlegar breytingar á refsiákvæðum laganna án þess að það verði rakið hér í einstökum atriðum.

Í fimmta lagi er með 9. gr. frv. lagt til að lögfest verði heimild til að veita erlendum stjórnvöldum upplýsingar um útlendinga vegna beiðni um dvalarleyfi, vegabréfsáritun eða hæli að því marki sem nauðsynlegt er til að fullnægja skuldbindingum landsins vegna þátttöku í Schengen-samstarfinu.

Herra forseti. Ég hef nú rakið efnisatriði frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.