Eftirlit með útlendingum

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 17:26:35 (4375)

2000-02-15 17:26:35# 125. lþ. 63.12 fundur 328. mál: #A eftirlit með útlendingum# frv. 25/2000, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[17:26]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hér hefur hæstv. dómsmrh. mælt fyrir frv. til laga vegna aðildar Íslands að Schengen. Spurningar mínar lúta að því hvort almennt eigi að gera breytingar á tilhögun þess er útlendingar koma til landsins, frá því sem hefur gilt áður hérlendis þegar útlendingar koma. Á bls. 4 í grg. frv. sé ég að þess verður krafist af útlendingum að þeir geti lagt fram viðhlítandi gögn til staðfestingar á tilgangi dvalar og hafi nægjanleg fjárráð til að geta séð fyrir sér á meðan á dvöl stendur. Enn fremur þarf útlendingur að geta greitt fargjald til heimaríkis eða þriðja ríkis þar sem honum hafi verið tryggður aðgangur, nema ef víkja á frá þessum skilyrðum af mannúðarástæðum.

Ég hef verið þeirrar skoðunar að almennt ætti frekar að liðka fyrir komu útlendinga til landsins, sé allt í lagi með þá ef svo má segja. Mér hefur fundist afar óviðfeldið og stundum glensast með það þegar við förum t.d. til Bandaríkjanna hve óvinsamleg aðkoman er þar. Sumir Íslendingar hafa haft á orði að það ætti að vera sérhlið fyrir Bandaríkjamenn þar sem þeir yrðu spurðir sömu spurninga og við erum spurð þar. Á að taka upp hið sama hér gagnvart öllum útlendingum utan Schengen-svæðisins? Áhugavert væri að vita á hvaða leið við förum með þessu frv.