Eftirlit með útlendingum

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 17:45:54 (4383)

2000-02-15 17:45:54# 125. lþ. 63.12 fundur 328. mál: #A eftirlit með útlendingum# frv. 25/2000, dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[17:45]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vísa til framsöguræðu minnar áðan þar sem ég skýrði efni frv. Ég undrast nokkuð þá tortryggni sem hér kemur fram í máli hv. þingmanna. Hér er verið að fjalla um tiltölulega einfalt tæknilegt mál sem snýr að breytingum á núgildandi lögum um eftirlit með útlendingum en með þessu frv. eru lagðar til nauðsynlegar breytingar á lögunum vegna fyrirhugaðrar þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu.

Frv. er aðeins eitt af fleiri lagafrv. sem flutt eru af þessu tilefni eins og hv. þingmönnum er kunnugt um.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson velti nokkuð fyrir sér þeim reglum sem gilda um málsmeðferð gagnvart þeim sem koma hingað til lands og er jafnvel snúið til baka, flóttamanna og annarra slíkra aðila og vitnaði m.a. til Genfarsáttmálans. Það eru auðvitað margvíslegar reglur sem gilda á þessu sviði. Ég held að Íslendingar hafi staðið sig nokkuð vel í að veita dvalarleyfi hér á landi af mannúðarástæðum þegar við höfum séð þörf til þess, en að öðru leyti tel ég eðlilegt að hv. þm. sem á sæti í allshn. fari yfir þetta mál þar, beri framkvæmdina saman við þær lagareglur sem eru í gildi og þau ákvæði frv. sem við ræðum um hér.

Ég held að óhætt sé að segja að Íslendingar hafi staðið vel að þessum málum og ég hygg að það hafi ekki farið fram hjá fólki hversu vel við höfum tekið á móti flóttamönnum og öðrum þeim sem hafa þurft á okkar hjálp að halda.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson gerði að umræðuefni sérstaklega Schengen-samkomulagið sjálft. Ég tel að ekki sé rétt að fara nákvæmlega út í umræður um það mál, en vil samt sem áður bregðast við þeim fullyrðingum hans að meiri hætta sé á ferðum með þessu samkomulagi gagnvart m.a. innflutningi á fíkniefnum og öðru því um líku. Þess vegna vil ég segja það, hæstv. forseti, að til þess að vega upp á móti hugsanlegum neikvæðum afleiðingum af afnámi persónueftirlits á innri landamærum, þá eru einmitt fjölmargar stuðningsaðgerðir sem eru teknar upp í Schengen-samstarfinu. Þar vil ég nefna nokkur atriði.

Í fyrsta lagi verður þar víðtæk lögreglusamvinna og ég nefni sérstaklega SIS-upplýsingakerfið í því sambandi. Í öðru lagi verða samræmdar reglur á ytri landamærum. Í þriðja lagi verður samræming á stefnu í vegabréfamálum. Í fjórða lagi verða ýmis atriði sem varða réttaraðstoð. Í fimmta lagi verður stóraukin samvinna í fíkniefnamálum og í sjötta lagi verður samvinna um útlendingamálefni, svo sem beiðni um hæli.

Ég vil taka það skýrt fram að Schengen-samkomulagið breytir heldur engu um vöruafgreiðslu og tolleftirlit.

Hæstv. forseti. Ég taldi rétt að láta þessi atriði koma hér fram vegna athugasemda hv. þm. en að öðru leyti ítreka ég það að málið fær væntanlega skoðun í hv. allshn. og þar gefst nefndarmönnum tækifæri til að fara yfir þær reglur og ábendingar sem hér hefur verið rætt um við 1. umr.