Eftirlit með útlendingum

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 17:54:32 (4387)

2000-02-15 17:54:32# 125. lþ. 63.12 fundur 328. mál: #A eftirlit með útlendingum# frv. 25/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[17:54]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. dómsmrh. sagði að ekki þyrfti að óttast að dragi úr eftirliti með fíkniefnum til landsins eða svo var að skilja á máli hæstv. ráðherra og benti á í því samhengi að jafnframt eða samhliða inngöngu okkar í Schengen, ef af því yrði, kæmi til sögunnar samstarf lögreglu, samstarf um fíkniefnaeftirlit almennt og ráðherrann taldi upp fleiri atriði og sagði síðan að einnig kæmi til sögunnar samræmt eftirlit á ytri landamærum. Vissulega. Út á það gengur Schengen. En málflutningur minn gekk hins vegar út á það að sýna fram á að eftirlit innan Evrópusamstarfs, innan Schengen-samstarfsins mundi dvína, draga mundi úr því. Og ég hélt sannast sagna að enginn deildi um að slíkt yrði.

Hins vegar er mér fullljóst að til sögunnar koma aðrir þættir ef einstaklingur frá Schengen-svæðinu er tekinn höndum hér, þá er hægt um vik að rekja feril hans eða komast að raun um hvort hann er eftirlýstur, ég geri mér grein fyrir þessu. En eftirlit á landamærum við komu til landsins er úr sögunni við inngöngu okkar í Schengen. Það er mergurinn málsins.