Tekjustofnar í stað söfnunarkassa

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 18:19:14 (4390)

2000-02-15 18:19:14# 125. lþ. 63.14 fundur 213. mál: #A tekjustofnar í stað söfnunarkassa# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[18:19]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umræðu er mjög umhugsunarvert og ekki eru mörg ár síðan lagaheimild var veitt fyrir söfnunarkössum og happdrættisvélum sem eru á sérstökum stöðum í sérstöku húsnæði þar sem átti að gæta þess að börn og ungmenni kæmu ekki að. Þarna kæmi eingöngu fullorðið fólk sem hefði vit fyrir sjálfu sér og hér ætti að vera frelsi til að velja hvernig maður notar peninga sína og hvort maður eyðir þeim í kassa eða eitthvað annað.

Mikil átök voru um lagasetninguna á sínum tíma. Þeir sem samkvæmt lögum hafa heimild til að vera með slíka söfnunar- og happdrættiskassa voru ekki allir tilgreindir í fyrsta frv. sem kom hingað inn í þingið og mér er það minnisstætt að þeir sem ekki áttu þá aðild að frv. gagnrýndu það harðlega að þeir sem væru að fá þarna heimild væru að fara að reka spilavíti.

Sú gagnrýni þagnaði hins vegar mjög snögglega þegar viðkomandi aðilar fengu líka leyfi eða því var bætt við í lagaheimildina til að reka slíkar happdrættisvélar og söfnunarkassa.

Ég er sannfærð um, virðulegi forseti, að fáir hafa reiknað með því að svo gífurlegar fjárhæðir ættu eftir að vera í spilunum eins og raun ber vitni. Ég get ekki ímyndað mér að nokkur hafi haft hugmyndaflug til að geta sér þess til að spilað yrði á næstu fjórum eða fimm árum fyrir milljarða. Hv. þm. Ögmundur Jónasson fór yfir þær tölur sem eru í tekjur fyrir stofnanirnar sem hann tilgreindi en síðla árs 1998 bar ég fram fyrirspurn um fyrir hversu mikið hefði verið spilað hvert ár frá 1994. Það er skemmst frá því að segja að árið 1994 var spilað fyrir 781 millj. hjá Íslenskum söfnunarkössum. Árið 1997 var þessi fjárhæð komin upp í 1.148 millj. Í happdrættisvélum Háskóla Íslands var árið 1994 spilað fyrir 360 millj. og árið 1997 var sú fjárhæð komin upp í 547 millj. Samanlagt er því búið að spila fyrir að því er mér sýnist milli 5 og 6 milljarða á fyrstu fjórum árum sem söfnunarkassar og happdrættisvélar sem eru við lýði í landinu.

Ég þekki líka vænsta fólk sem hefur spilað frá sér hús og heimili og kemur manni jafnmikið á óvart hverju sinni að það skuli ekki vera eitthvað öðruvísi fólk sem lendir í slíkri ógæfu. Þá vaknar sú spurning hvort á að hafa vit fyrir fólki, hvort lausnin sé sú að banna og reyna að snúa tímavélinni til baka til einhvers upphafs þar sem ekki var heimilt að opna sérstakar stofur með söfnunarkössum og happdrættisvélum sem hafa hirt úr vasa heimilanna í landinu 5--6 milljarða á fjórum til fimm árum.

Í tillögunni sem nú er til umræðu er verið að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd sem gerir tillögur um leiðir til fjáröflunar fyrir Háskóla Íslands, Rauða krossinn, SÁÁ og Slysavarnafélagið Landsbjörg og það komi í stað tekna af rekstri söfnunarkassa. Í þessari tillögu er auðvitað sú hugsun að hjálparstofnanir, mennta- og menningarstofnanir eigi ekki að eiga afkomu sína undir þeirri ógæfu sem felst í því þegar fólk hefur spila frá sér heimilið og fjölskylduna. Ég ætla ekki að taka afstöðu til þess hvað á að gera hjá slíkum stofnunum ef þessi tillaga nær fram að ganga. En ég held að það sé mjög þarft að ríkisstjórnin skoði það hvernig halda má á málum ef þeim stofnunum á að vera gert kleift að starfa af sama krafti og þrótti og hingað til en ekki að þurfa að byggja á tekjustofnum sem verða til á þann hátt sem hér er til umfjöllunar.