Tekjustofnar í stað söfnunarkassa

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 18:24:46 (4391)

2000-02-15 18:24:46# 125. lþ. 63.14 fundur 213. mál: #A tekjustofnar í stað söfnunarkassa# þál., Flm. ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[18:24]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur fyrir góð orð og upplýsandi ræðu. Það er rétt sem fram kom í máli hennar að mikilvægt er að skoða þær upphæðir í því ljósi sem hún nefndi, hvað hefði verið tekið upp úr vösum heimilanna. Ég get getið þess að á árinu 1998 þar sem ég sagði í framsöguræðu minni að 1.069 millj. hefðu runnið til happdrættisaðilanna, eftir að tilkostnaður og vinningar höfðu verið dregnir frá, þá var þessi upphæð upphaflega miklu hærri, 1.890 millj. áður en sá kostnaður er dreginn frá. Reyndar er veltan í þessum kössum miklu meiri en við höfum bæði nefnt því að einhverjir peningar renna til fíklanna. Vogun vinnur, vogun tapar er mottóið sem spilað er samkvæmt. Eitthvað rennur til þeirra sem spila þótt flestir sitji eftir með sárt ennið.

Mig langar til að nefna aðeins eitt atriði áður en ég lýk máli mínu og það er að minna á eina ferðina enn að dómsmrn. og dómsmrh. hefur ekki farið að lögum sem sett voru um söfnunarkassana á sínum tíma að því leyti að í þeim lögum er kveðið á um að setja skuli reglugerð um þessa kassa. Það hefur aldrei verið gert og ég vil vekja athygli á því að nefnd sem var starfandi á vegum dómsmrn. um framtíðarskipan happdrættismála á Íslandi vakti sérstaklega athygli á þessu í skýrslu sem hún sendi frá sér fyrir fáeinum mánuðum. Ég hef vakið máls á því við hæstv. dómsmrh. bæði í þingsal og í blaðagreinum hverju sæti að engin viðbrögð komi frá ráðuneytinu. Engin svör hafa komið en ég get fullvissað hæstv. forseta Alþingis um að hæstv. ráðherra verður haldið við efnið í því sambandi.