Atkvæðagreiðsla um skýrslubeiðni

Miðvikudaginn 16. febrúar 2000, kl. 13:43:53 (4397)

2000-02-16 13:43:53# 125. lþ. 64.92 fundur 316#B atkvæðagreiðsla um skýrslubeiðni# (um fundarstjórn), RG
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 125. lþ.

[13:43]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Það var sannarlega fullt tilefni til að hv. þm. Margrét Sverrisdóttir gerði athugasemd við fundarstjórn forseta. Ég vek athygli á þessari uppákomu. Fundarstjóri, sitjandi forseti, hefur ekki svarað athugasemd þingmannsins en aðalforseti þingsins sem hér er í sal hefur brugðist við. Ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta mjög undarlegt. Ég taldi að mál af þessum toga færu ekki á dagskrá fyrr en aðalforseti þingsins væri búinn að kanna málið og úrskurða sjálfur að það væri þingtækt. Þess vegna finnst mér undarlegt að aðalforseti þingsins sem sett hefur málið á dagskrá skuli koma og segjast vilja skoða það einn dag. Ég get alveg fallist á að það munar ekki miklu fyrir þá sem biðja um skýrsluna hvort þingið samþykki hana deginum fyrr eða síðar. En þetta er allsérstætt og mér finnst, herra forseti, að þingið eigi heimtingu á að vita hvað breyttist frá því að aðalforseti þingsins ákvað að skýrslubeiðnin væri þingtæk og þar til hann kemur nú og lýsir því yfir að hann verði að skoða betur hvort málið sé þingtækt. Mér finnst, herra forseti, að við eigum rétt á svari við þessari spurningu.