Atkvæðagreiðsla um skýrslubeiðni

Miðvikudaginn 16. febrúar 2000, kl. 13:48:24 (4402)

2000-02-16 13:48:24# 125. lþ. 64.92 fundur 316#B atkvæðagreiðsla um skýrslubeiðni# (um fundarstjórn), SJS
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 125. lþ.

[13:48]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Í allri vinsemd leyfi ég mér að segja að væntanlega hefði það sparað þessa umræðu ef komið hefði skýring í eins og tveimur setningum á því hvers vegna þetta fyrsta dagskrármál væri ekki borið upp til atkvæða. Það hefði borist ósk um að fá að athuga málið nánar og það hefði verið tekið fyrir á morgun og ég hefði þá ekki gert athugasemdir við það.

Ég minni á þá venju að bera tafarlaust upp til samþykktar eða synjunar í þinginu skýrslubeiðnir af þessu tagi, sú er hefðin hygg ég vera.

Auðvitað geri ég ekki stórfelldar athugasemdir við það þó að hæstv. forseti eða eftir atvikum einhverjir hv. þm. vilji fá að skoða svona skýrslubeiðni nánar en það hlýtur þá að vera vegna þess að efasemdir hafi vaknað í brjóstum viðkomandi um að skýrslubeiðnina eigi að samþykkja. Hér viðhafði hv. 1. þm. Norðurl. e. þau orð að þetta væri til að athuga hvort skýrslubeiðnin væri þinglega fram borin.

Nú undrar það mig að svo skuli tekið til orða þar sem 11 þingmenn fara fram á skýrsluna og sá er réttur þingmanna 9 eða fleiri ef ég man rétt í þingsköpum að óska eftir slíkri skýrslu. Hvað getur þá verið óþinglegt við hana annað en það sé þá mat forseta að farið sé fram á upplýsingar með þeim hætti að það væri brot á einhverjum lögum eða reglum að verða við þeim. Þá hlýtur aftur að vera komið að því að menn séu með hugmyndir um að leggja það til og þess vegna sé óskað eftir tíma til athugunar málsins að uppi séu hugmyndir um að leggja það til að skýrslubeiðnin verði felld. Þá er það auðvitað, herra forseti, grafalvarlegur atburður. Þess munu afar fá dæmi ef nokkur að sá sterki réttur þingmanna að krefja upplýsinga hvort sem heldur er með fyrirspurnum, munnlegum eða skriflegum eða beiðnum um skýrslur sé ekki virtur til hins ýtrasta. Ég bíð þá eftir að sjá þann rökstuðning sem heldur í þeim efnum að það geti þá verið tilefni til þess að leggja það til að þessari skýrslubeiðni verði hafnað.