Upplýsingamiðlun EFTA til væntanlegra ESB-landa

Miðvikudaginn 16. febrúar 2000, kl. 13:52:06 (4404)

2000-02-16 13:52:06# 125. lþ. 65.1 fundur 316. mál: #A upplýsingamiðlun EFTA til væntanlegra ESB-landa# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi ÖS
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 125. lþ.

[13:52]

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Samningur um Evrópska efnhagssvæðið er ákaflega mikilvægur fyrir Ísland. Ég held að hann eigi ríkan þátt í þeirri velsæld sem hér hefur orðið til á síðustu árum. Það skiptir því miklu máli að styrkja þennan samning ekki síst þegar í gangi er þróun sem allt bendir til að muni veikja samninginn eins og fram kom í orðaskiptum okkar hæstv. utanrrh. í síðustu viku. Hluti af þeirri þróun sem veikt getur samninginn eru afleiðingar af stækkun Evrópusambandsins. Þegar ný ríki verða fullgildir þátttakendur í Evrópusambandinu þá verða þau um leið sjálfkrafa aðilar að samningnum um EES. Eftir það eru þau kölluð til umsagnar um öll þau mál sem varða hagsmuni okkar og þennan samning. Þess vegna er ákaflega mikilvægt að væntanleg aðildarlönd séu vel upplýst um hvað felst í samningnum um EES og hvaða rétt og skyldur þau hafa gagnvart þeim samningi.

Því miður er þó staðreynd, herra forseti, að þekkingu þeirra ríkja sem þegar eru innan ESB er ákaflega áfátt þegar kemur að þessum samningi. Áhugi þeirra á samningnum hefur raunar aldrei verið mjög mikill og fer dvínandi ef eitthvað er, enda virðast sum þeirra líta á hann sem tímabundið og skammvinnt fyrirtæki. Þess vegna held ég, herra forseti, að því miður sé líka líklegt að hin nýju ríki sem innan fárra ára kunna að verða aðilar að Evrópusambandinu hafi litla þekkingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið nema henni verði sérstaklega ýtt að þeim. Það væri ákaflega neikvætt fyrir hagsmuni okkar ef það væri ekki gert. Ég tel að okkur beri skylda til að upplýsa þessi lönd um samninginn og reyna að efla tvíhliða upplýsingaflæði, annars vegar með því að Íslendingar sjálfir hafi sem nánast samband við þau ríki sem núna eru að hefja viðræður um aðild að ESB og sömuleiðis tel ég að EFTA ætti að gera sérstakt átak í þeim efnum.

Ég geri mér að sjálfsögðu grein fyrir því að Evrópusambandið hefur skyldum að gegna í þessu efni. Eigi að síður tel ég nauðsynlegt að við tökum af skarið í þessum efnum og leggjum í sérstakt átak til að efla flæði upplýsinga um Evrópska efnahagssvæðið til þessara kandídata til aðildar að ESB. Þess vegna hef ég lagt fram fyrirspurnir til hæstv. utanrrh. þar sem ég spyr:

,,1. Hvernig hefur EFTA reynt að kynna væntanlegum aðildarlöndum Evrópusambandsins EES-samninginn?

2. Er fyrirhugað að gera átak af hálfu EFTA til að efla þekkingu þeirra á samningnum?

3. Mun utanríkisráðuneytið reyna sérstaklega að auka þekkingu og skilning viðkomandi landa á mikilvægi EES-samningsins fyrir Ísland? Ef svo er, hvernig?``