Upplýsingamiðlun EFTA til væntanlegra ESB-landa

Miðvikudaginn 16. febrúar 2000, kl. 14:00:37 (4406)

2000-02-16 14:00:37# 125. lþ. 65.1 fundur 316. mál: #A upplýsingamiðlun EFTA til væntanlegra ESB-landa# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 125. lþ.

[14:00]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ástarjátningar hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar í garð EES-samningsins voru athyglisverðar. Það var helst á hv. þm. að heyra að samningurinn hefði tekið við því hlutverki að vera undirstaða velsældar í landinu og hefði leyst þorskinn af hólmi í þeim efnum. Sömuleiðis hafði hv. þm. áhyggjur af því að væntanleg aðildarríki að Evrópusambandinu væru ekki nógu upplýst um EES-samninginn og áhyggjur af framtíð EES-samningsins. Þá er ekkert eftir ósagt annað en það sem liggur í loftinu, þ.e. söknuður hv. þm. yfir því að Ísland skuli ekki vera í þessum hópi, sem er augljós.

Að öðru leyti, herra forseti, held ég að þær breytingar sem verða á þessu rísandi sambandsríki Evrópu hvað varðar skipulag og ákvarðanatökuferli sé miklu stærra mál heldur en hversu vel upplýst hin nýju aðildarríki eru um Ísland og EES-samninginn. Þegar sex og svo kannski önnur sex ríki bætast þarna við mun það leiða til verulegra breytinga á skipulagi þessa bandalags. Það er verulega stórt mál og ástæða til að fylgjast með því, miklu fremur en hitt að hafa áhyggjur af þessum þætti málsins.