Breyting á áfengiskaupaaldri

Miðvikudaginn 16. febrúar 2000, kl. 14:14:20 (4412)

2000-02-16 14:14:20# 125. lþ. 65.2 fundur 323. mál: #A breyting á áfengiskaupaaldri# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 125. lþ.

[14:14]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka ráðherra hæstv. fyrir svörin. Það er alveg ljóst eins og fram kom í máli hennar að sökin er ekki hennar nema að hluta. Þau vinnubrögð sem hafa verið viðhöfð í dómsmrn. eru vissulega til vansa og ámælisverð. Ég hef sagt að ég hafi fullan skilning á því að þessi nefnd þurfi ákveðið svigrúm til að vinna verk sitt og kannski lengri tíma en þingið gaf í upphafi, en það er lágmark að hæstv. ráðherra láti þá Alþingi vita hvernig standi á slíkum drætti, að það skuli líðast að fjórum mánuðum eftir að skýrslan á að liggja hér fyrir Alþingi, þá fyrst skipi ráðherra nefndina.

[14:15]

Nú þegar liðið er eitt og hálft ár frá því að skýrslan átti að liggja fyrir þinginu þarf að kreista fram hjá þessum tveimur ráðherrum skýringar á þeim drætti. Það er þetta sem ég er fyrst og fremst að gagnrýna. Það er áhyggjuefni hve oft ráðherrar vanvirða þingið t.d. með því að veita ekki upplýsingar sem þm. óska eftir hjá framkvæmdarvaldinu. Það er þetta fyrst og fremst sem ég er að vekja athygli á. Ég nefndi það hér að hæstv. sjútvrh. gerði þinginu grein fyrir því þegar á öðrum degi þingsins í haust að dráttur yrði á því að hann gæti lagt fram skýrslu sem hann átti að leggja fyrir í janúarmánuði, sem þá voru fjórir mánuðir í. En hæstv. dómsmrh. hefur ekki gert það. Þess vegna er þessi vinnubrögð ámælisverð.

En það hefur þó komið hér fram að verið er að vinna af miklum krafti í þessari skýrslu og það er vel. Hún verður væntanlega lögð fyrir í aprílmánuði nk. eins og hæstv. ráðherra bendir á en ég skil ekki að tvo mánuði þurfi til viðbótar til að vinna þessa skýrslu þegar drög liggja þegar fyrir á borði ráðherra. Ráðherra hefur sem sagt viðurkennt það sem ég spurði um í fsp. minni, að ástæða væri til að óska eftir atbeina Alþingis til að fá framlengdan þann frest sem Alþingi gaf dómsmrh. Ráðherra hefur sagt að það sé ekki til eftirbreytni að framfylgja ekki lagafyrirmælum eins og hv. tveir dómsmrh. hafa orðið berir að.