Íslenski hrafninn

Miðvikudaginn 16. febrúar 2000, kl. 14:19:56 (4414)

2000-02-16 14:19:56# 125. lþ. 65.4 fundur 313. mál: #A íslenski hrafninn# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 125. lþ.

[14:19]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Spurt er hvort umhvrh. hyggist beita sér fyrir því að íslenska hrafninum verði bætt á válista. Það er ekki í verkahring umhvrh. að meta hvort viðkomandi stofn eða tegund fari á válista né að beita sér fyrir því. Við mat á því hvort tegund er sett á válista er farið eftir settum viðmiðunum sem byggja á vísindalegum upplýsingum um ástand viðkomandi stofns og þróun hans undanfarin ár.

Náttúrufræðistofnun Íslands er sú stofnun ráðuneytisins sem framkvæmir slíkt mat og gefur út válista yfir þær tegundir sem eiga undir högg að sækja í ljósi settra viðmiðana frá Alþjóðanáttúruverndarsamtökunum. Undanfarin ár hefur Náttúrufræðistofnun Íslands unnið að gerð válista yfir fugla og er þeirri vinnu að mestu lokið. Samkvæmt upplýsingum stofnunarinnar á eftir að fara yfir og athuga betur gögn um fjórar tegundir og ganga frá listanum til útgáfu. Væntanlega verður válistinn yfir fugla gefinn út innan tveggja mánaða.

Hrafninn er ein af þessum fjórum tegundum sem eru í athugun og í drögum að válistanum sem nú er í vinnslu er hrafninn flokkaður til tegunda í svokallaðri yfirvofandi hættu, sem er slök þýðing úr ensku á orðinu ,,vulnerable``. Ástæðan fyrir því er að samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir liggja virðist stofninn hafa minnkað um 20% eða meira á undanförnum árum. Eins og fram kom í fsp. og svörum mínum í síðustu viku hefur hann farið minnkandi en athugun stofnunarinnar beinist núna að því að meta hvort upplýsingar um hrafnastofninn séu nægjanlega áreiðanlegar til að flokka hann með þessum hætti eða hvort setja ætti hrafninn í flokk sem kallast upplýsingar ófullnægjandi.

Varðandi það sem kom fram í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar um að líkleg skýring væri ofveiði, þá hefur hún eigi að síður farið minnkandi. Árið 1995 voru veiddir 7.100 fuglar en árið 1998 5.500 fuglar. Veiðin hefur því farið minnkandi en rétt er að miðað við þær upplýsingar sem við höfum eru ungarnir 5.000, þannig að hér er um meiri veiði að ræða heldur en ungafjölda. Ég vil einnig nefna að ýmsir telja eðlilegt að hrafninum fækki vegna þess að hann komist í minna æti en fyrr, þ.e. það er búið að loka meira af ruslahaugum og skreiðarhjallar eru ekki um allt land eins og var hér áður fyrr og það gæti því verið eðlilegt að stofninn drægist saman.

Virðulegur forseti. Varðandi fyrirspurnina mun ráðuneytið ekki hafa afskipti af þessu ferli, þ.e. válistaferlinu. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur verið að vinna að útgáfu válistans fyrir fuglana í samræmi við hlutverk stofnunarinnar og í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar, svo sem ákvæði í Bernarsamningnum um vernd villtra plantna og dýra og búsvæða þeirra. Við munum því bíða átekta eftir að válistinn verði skýr og meta hvort þá þurfi að grípa til aðgerða eða ekki.