Íslenski hrafninn

Miðvikudaginn 16. febrúar 2000, kl. 14:25:41 (4417)

2000-02-16 14:25:41# 125. lþ. 65.4 fundur 313. mál: #A íslenski hrafninn# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi ÖS
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 125. lþ.

[14:25]

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Hafi ég skilið hæstv. ráðherra rétt þá er í máli hennar hrapallegur misskilningur. Hæstv. ráðherra benti á að veiðar hefðu minnkað á hrafni. Það er rétt. Árið 1995 voru veiddir rösklega 7.000 hrafnar og 1998 ekki nema 5.100. En það eru hættumerki sem speglast í því. Á þessum tíma hefur veiðimönnum að líkindum fjölgað frekar en hitt og það að veiðiálagið skuli aukast á sama tíma og veiðin minnkar bendir auðvitað til þess að stofninn sé að minnka og e.t.v. hraðar en þessar tölur gefa til kynna. Ég tek það hins vegar fram, herra forseti, að ég er sammála hæstv. ráðherra um að gera megi því skóna að á síðustu tveimur áratugum sé ekkert óeðlilegt þó að hrafnastofninn minnki vegna þess að miklu minna framboð er af fæðu en áður með bættu hreinlæti og bættri förgun sorps. En upplýsingarnar sem hæstv. ráðherra flutti hingað inn eru auðvitað ógnvekjandi frá sjónarhóli þessa stofns. Þær fela það í sér að verið sé að veiða fleiri fugla á hverju ári en komast upp. Þá hlýtur maður að staldra við og spyrja: Er það ekki skylda hæstv. ráðherra, sem á fyrir hönd framkvæmdarvaldsins að gæta náttúrunnar, að grípa í taumana? Að sjálfsögðu.

Það er ein meginregla sem allir stjórnmálaflokkar eru sammála um, eru a.m.k að verða sammála um og Framsfl. hefur verið sammála um æðilengi. Hún er sú að náttúran eigi að njóta vafans. Það hefur ítrekað komið fram hjá talsmönnum Framsfl. að náttúran eigi að njóta vafans. Þess vegna dugir ekki fyrir hæstv. ráðherra að koma og segja að ekki sé víst að nægilegar upplýsingar séu fyrir hendi til þess að draga ályktun um stöðu hrafnsins. Ef upplýsingar eru ekki fyrir hendi en vísbendingar hins vegar, álitlegar meira að segja, um að þessi stofn kunni að sæta ofveiði, eins og hæstv. ráðherra sagði fyrir viku síðan, þá á hrafninn að njóta vafans. Það á að setja hann á válista. Þetta er kunningi okkar og eins og áður hefur komið fram er allsendis óvíst hvort Norðmenn hefðu nokkurn tímann fundið Ísland ef ekki hefði verið fyrir atbeina þeirra þriggja hrafna sem fylgdu Hrafna-Flóka.