Rannsóknir á tveimur sjóslysum

Miðvikudaginn 16. febrúar 2000, kl. 14:33:31 (4420)

2000-02-16 14:33:31# 125. lþ. 65.3 fundur 278. mál: #A rannsóknir á tveimur sjóslysum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 125. lþ.

[14:33]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir spurningarnar sem hljóðuðu þannig:

,,1. Hvað líður rannsóknum á sjóslysunum þegar Vikartindur strandaði og Dísarfell sökk?

2. Hvenær má vænta niðurstöðu þeirra?``

Vikartindur, sem strandaði vélarvana austan Þjórsár 5. mars 1997, var skráður í Þýskalandi og með erlenda áhöfn. Rannsóknarnefnd sjóslysa hefur lokið rannsókn sinni og skilað skýrslu til samgrh. Nefndin telur að orsök strandsins hafi verið röng greining bilana í aðalvél og vanmat skipstjóra á aðstæðum þegar hann heimilaði að vélin væri stöðvuð. Hann hefði átt að knýja á um að halda vélinni í gangi og telur nefndin að skipstjóra hafi mátt vera ljóst að áhættusamt væri að liggja við akkeri til lengdar með hliðsjón af vaxandi veðurhæð og álandsvindi. Jafnframt telur nefndin það hönnunargalla að ferskvatnskælikerfi ljósavéla og aðalvélar hafi ekki verið alveg aðskilin og óháð hvort öðru.

Dísarfell, sem sökk 9. mars 1997 á leið til Evrópu, var skráð í Antíku á Barbados og var eign Sigling D Shipping Company sem er dótturfélag Samskipa hf. Áhöfn skipsins var íslensk. Rannsókn rannsóknarnefnda sjóslysa hefur lokið rannsókn sinni og skilað skýrslu til samgrh. fyrr í dag. Skiptar skoðanir eru meðal nefndarmanna hver hafi verið orsök slyssins og skila tveir nefndarmanna séráliti í málinu. Í nefndinni komu fram tvö meginsjónarmið um ástæður þess að Dísarfell sökk. Annað sjónarmiðið, sem fram kemur í séráliti eins nefndarmanna, er að vegna bilunar í dælukerfum og/eða fyrir mistök hafi sjó verið dælt eða hann runnið inn í lestar um samtengt austur- og kjölfestukerfi. Hitt sjónarmiðið, sem fram kemur í séráliti eins nefndarmanns, er að loftrásir lesta og/eða lokunarbúnaður þeirra hafi gefið sig og sjór streymt inn eða þá að bilun hafi orðið í austurkerfi skipsins sem orsakaði innstreymi sjávar í lestar í stað útdælingar. Meiri hluti nefndarinnar, þ.e. þrír af fimm, telur að báðar þessar skýringar geti staðist út af fyrir sig. Þeir telja þó fyrra sjónarmiðið líklegri ástæðu þess að Dísarfell sökk en útiloka ekki seinna sjónarmiðið og að þau geti jafnvel verið samverkandi.