Rannsóknir á tveimur sjóslysum

Miðvikudaginn 16. febrúar 2000, kl. 14:37:52 (4422)

2000-02-16 14:37:52# 125. lþ. 65.3 fundur 278. mál: #A rannsóknir á tveimur sjóslysum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 125. lþ.

[14:37]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég þakka samgrh. fyrir greinargóð svör hans um leið og ég vil geta þess sérstaklega, svo það valdi ekki misskilningi, að ég talaði um að ekki hefði orðið slys við strand Vikartinds. Hins vegar varð dauðaslys þegar áhöfn eins af varðskipum okkar lagði sig alla fram við björgunarstörf. Þá fórst einn áhafnarmaður varðskipsins.

Segja má að hér sé nokkuð merkilegt mál á ferðinni. Í fyrsta lagi vegna þessara tveggja álita sem koma fram frá þeim sem sitja í sjóslysanefnd og í annan stað vegna þess að um er að ræða dótturfyrirtæki íslensks skipafélags undir erlendum fána en ætla má lögum samkvæmt að íslensk yfirvöld hafi takmarkaðan aðgang að upplýsingum vegna þess hvar skipið er skráð. Ég tel hins vegar fulla ástæðu til þess að taka tvennt til mjög alvarlegrar athugunar í hinni íslensku löggjöf. Það er í fyrsta lagi það einke nnilega ástand sem er ríkjandi þegar skip ferst eða strandar. Við þekkjum dæmi um það, ekki eru mörg ár síðan að sanddæluskipi hvolfdi úti við Engey. Það liðu líklega tvær vikur eða á þriðju viku þangað til skipið var tekið af strandstað og rannsókn málsins hófst. Full ástæða er til þess að herða mjög á rannsóknum sjóslysa eins og gerist við flugslys. Í sjálfu sér er mjög undarlegt að enn skuli svo vera háttur hafður á sem raun ber vitni um sjóslysin. Í annan stað held ég að full ástæða sé til þess að breyta lögum hér þannig að við höfum meiri yfirráð og getum blandað okkur í rannsókn slysa sem verða á skipum undir erlendum fána í ljósi þess hvernig kaupskipafloti okkar Íslendinga hefur þróast á liðnum árum.