Varðveisla sjaldgæfra hrossalita

Miðvikudaginn 16. febrúar 2000, kl. 14:45:48 (4425)

2000-02-16 14:45:48# 125. lþ. 65.5 fundur 317. mál: #A varðveisla sjaldgæfra hrossalita# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 125. lþ.

[14:45]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ef minni mitt svíkur mig ekki þá minnir mig að ég hafi talið hátind sköpunarverksins vera konuna en ekki hestinn. En hesturinn er ofarlega og ég vil þakka hv. þm. og væntanlegum leiðtoga Samfylkingarinnar fyrir þann áhuga sem hann sýnir íslenska hestinum og þessum sjaldgæfa lit. Landbrh. og landbrn. er ljós sú hætta sem steðjar að einstökum litaafbrigðum í íslenska hrossastofninum og jafnframt mikilvægi þess í erfðafræðilegu tilliti og markaðslegu að viðhalda litafjölbreytni stofnsins. Í flestum langræktuðum kynjum í heiminum er búið að útrýma öllum litum nema brúnum, rauðum og jörpum. Þar er því litafjölbreytileikinn horfinn. Þessir þrír umræddu litir eru nú þegar orðnir ráðandi í íslenska hrossastofninum. Mun meiri umræða hefur á síðustu árum orðið um hrossaliti og litaerfðir en áður var og skipta litir nú sífellt meira máli, bæði á innlendum og erlendum mörkuðum fyrir íslensk hross.

Landbrn. leitaði á sl. hausti eftir áliti erfðanefndar búfjár á gildi litafjölbreytni íslenska hestsins. Í svari nefndarinnar kemur m.a. fram að íslenski hesturinn er sérstæður bæði hvað varðar gangtegundir og litafjölbreytni. Fjölbreyttir litir eru raunar einkenni fyrir öll gömlu íslensku búfjárkynin en hestalitirnir eru þó sennilega fjölbreyttastir. Því hefur verið haldið fram með nokkrum rökum að ræktunarstarfið hafi á undanförnum áratugum dregið úr þessari fjölbreytni án þess að slíkt hafi beinlínis verið hluti ræktunarmarkmiðsins.

Nýleg samantekt Þorvaldar Árnasonar og Ágústs Sigurðssonar á gögnum úr gagnabanka Búnaðarfélags Íslands um tíðni lita og litaerfðavísa staðfestir þetta, því miður, en þar kemur fram að tíðni erfðavísa sem stýra fáséðari litum er orðin ískyggilega lág. Þessir erfðavísar eru margir ríkjandi og er mun meiri hætta á að tapa eiginleikum sem stjórnast af ríkjandi erfðum en þeim sem erfast víkjandi og geta erfst óséðir. Þetta á sérstaklega við um erfðavísinn sem veldur litföróttu, en tíðni hans reyndist innan við 1% í gögnum sem töldu 64.000 hross. Hv. þm. fór því með staðreyndir hér áðan. Einnig hefur ráðuneytið skrifað fagráði um hrossarækt um þessi mál og lagt áherslu á að unnið verði að verndun litföróttra hrossa.

Eins og fram kemur í bréfi erfðanefndar búfjár eru hin einstöku litaafbrigði hrossa í mismikilli útrýmingarhættu. Það litaafbrigði sem er í mestri útrýmingarhættu er litförótt, en tíðni þessa litar í hrossastofninum er um 1% eins og ég sagði hér áðan. Litförótt hross skipta um lit á bolnum með árstíðunum. Þau eru dökk yfir vetrarmánuðina meðan þau eru loðnari. Þau fella vindhárin síðla vetrar og verða þá smám saman grá og loks hvít á bolinn þegar vorar. Síðan dökkna þau aftur snemmsumars þegar þau fella hvítu undirhárin og ný stutt vindhár koma í ljós. Er líður á sumarið grána þau smátt og smátt og hvítna loks alveg er haustar. Með vetrarkomu verða hrossin aldökk á ný.

Fyrir forgöngu Páls Imslands jarðfræðings og nokkurra bænda á Suðurlandi hefur verið efnt til átaks til þess að fjölga litföróttum hrossum. Þá hefur fagráð í hrossarækt í samvinnu við skólabúið á Hólum og fleiri aðila undirbúið átak til þess að ná fram með ræktun góðan litföróttan stóðhest. Eins og í öllu ræktunarstarfi getur verið tvísýnt um árangur af þessari tilraun. En takist hún má heita öruggt að þessu sérkennilega litaafbrigði sé borgið. Stofnverndarsjóður íslenska hestakynsins hefur veitt 1 millj. kr. styrk til þessa verkefnis.

Að lokum vil ég minna á að ríkisstjórn Íslands og Alþingi hafa veitt mikið fjármagn til samtaka hestamanna á næstu fimm árum og bind ég vonir við að sá peningur sem einnig verður notaður í rannsóknir í kringum hestana og alls konar átak í gæðastjórnun o.fl., verði nýttur til að varðveita sérkenni íslenska hrossastofnsins á öllum sviðum. Sá landbrh. sem hér stendur er því frekar bjartsýnn á að vel verði unnið í þessum málum á næstu árum og trúir því að við munum geta varðveitt þá auðlind sem er í íslenska hestinum.