Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar

Miðvikudaginn 16. febrúar 2000, kl. 14:59:06 (4430)

2000-02-16 14:59:06# 125. lþ. 65.6 fundur 331. mál: #A endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 125. lþ.

[14:59]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Snemma á síðasta ári, í mars líklega, voru samþykkt lög frá Alþingi um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Frv. var ekki lengi í meðförum Alþingis því mikið lá við að afgreiða það fyrir vorið, þ.e. að afgreiða það fyrir kosningar. Frv. sem þáv. iðnrh. lagði fyrir þingið varð óbreytt að lögum því að hvorki var hlustað á gagnrýni né góð ráð. Við meðferð málsins í þinginu var 7. gr. frv. einkum gagnrýnd þar sem segir í gildandi lögum, því eins og ég sagði varð frv. óbreytt að lögum, með leyfi forseta:

,,Hafi umsækjandi hlotið styrk úr Kvikmyndasjóði Íslands til framleiðslu sömu myndar fær hann ekki endurgreitt samkvæmt lögum þessum.``

[15:00]

Með þessu, herra forseti, voru allar íslenskar kvikmyndir útilokaðar frá þessum tímabundnu endurgreiðslum vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Það var líka ítrekað bent á það hér í umræðunni þvílík mismunum fælist í þessu þar sem íslenskar kvikmyndir eru, eins og menn vita, mjög háðar því að fá styrk úr Kvikmyndasjóði, en erlendir aðilar með styrk úr kvikmyndasjóði eigin lands fengju hins vegar endurgreiðsluna, eða öllu heldur þessa greiðslu úr ríkissjóði þar sem ekki er um eiginlega endurgreiðslu að ræða, því það er verið að greiða úr ríkissjóði ákveðið hlutfall af framleiðslukostnaði sem fellur til við gerð kvikmynda eða sjónvarpsefnis hér á landi. Í umræðunni var jafnframt bent á að um mismunun væri að ræða og hætt væri við að verið væri að brjóta jafnræðisreglu Evrópusambandsins með því að mismuna með þessum hætti á milli landa eða þjóða. Nú virðist það vera svo að ákvæði laganna gangi ekki gagnvart því alþjóðlega umhverfi sem við störfum í. ESA, sem er Eftirlitsstofnun EFTA, hefur gert athugasemdir við lögin þar sem þau eru talin stangast á við það jafnræði sem aðilar eiga að búa við á Evrópska efnahagssvæðinu. Ég hef því lagt eftirfarandi spurningu fyrir hæstv. iðnrh.:

Hvernig verður brugðist við því að lög nr. 43/1999, um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, eru talin stangast á við jafnræðisreglur Evrópusambandsins?