Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar

Miðvikudaginn 16. febrúar 2000, kl. 15:07:21 (4434)

2000-02-16 15:07:21# 125. lþ. 65.6 fundur 331. mál: #A endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 125. lþ.

[15:07]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör og fyrir það sem hún kýs að upplýsa okkur um varðandi stöðu málsins. Ég var ein þeirra sem samþykkti á endanum þessa löggjöf í rauninni vegna þess anda sem var í lögunum, þ.e. þann vilja sem þar kom fram til að styðja kvikmyndagerð í landinu, og í rauninni leit ég svo á að hér væri verið að taka ákveðið skref sem síðar yrði væntanlega tök á að leiðrétta og þá íslenskum kvikmyndum í vil. Mér sýnist reyndar miðað við það sem hæstv. ráðherra greinir okkur frá að fallist hafi verið á það vegna þeirrar gagnrýni sem fram hefur komið, að endurskoða þurfi löggjöfina nánast frá grunni vegna þess að í löggjöfinni er kvöð um stofnsetningu, kvöð um að búið sé til sérstakt fyrirtæki til þess að fá að njóta greiðslna úr ríkissjóði. Ég hygg að menn þurfi að hugsa þessi mál vel, íhuga það að nýju, en vænti þess þó að menn gefist ekki upp heldur takist á við það verkefni að styrkja kvikmyndagerð enn frekar en verið hefur og hafi þá hugann við það að íslensk kvikmyndagerð þarf ekki síður á frekari styrkjum að halda en sú erlenda.