Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000, kl. 10:35:27 (4438)

2000-02-17 10:35:27# 125. lþ. 66.3 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 125. lþ.

[10:35]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Tillaga sú að vegáætlun sem hér liggur fyrir fjallar um fjáröflun og framkvæmdir á árunum 2000--2004. Tillögunni var dreift á Alþingi í desember sl., rétt fyrir jólaleyfi þingsins. Niðurstöðutölur tillögunnar fyrir árið 2000 eru í samræmi við það sem ákveðið er í fjárlögum fyrir það ár.

Vorið 1998 voru samþykktar á Alþingi þál. um veg\-áætlun fyrir tímabilið 1998--2002 og um langtímaáætlun í vegagerð fyrir árin 1999--2010. Langtímaáætlun er skipt í þrjú tímabil og tekur hvert þeirra yfir fjögur ár. Hið fyrsta yfir árin 1999--2002, bæði ár meðtalin. Til að fá samsvörun milli áætlana og auðvelda samanburð þeirra varð vegáætlun að ná yfir fimm ár, þ.e. árið 1998 og svo fyrsta tímabil langtímaáætlunar.

Við endurskoðun vegáætlunar nú er tekið tillit til þessa samspils og nær hún þá einnig til fimm ára. Árin 2003 og 2004 bætast við, þ.e. fyrri helmingur annars tímabils langtímaáætlunar. Við næstu endurskoðun vegáætlunar veturinn 2001--2002 bætast við árin 2005 og 2006, þ.e. tvö seinni ár annars tímabils langtímaáætlunar. Langtímaáætlunin kemur þá einnig til endurskoðunar og verður þannig áfram stefnt að samsvörun þessara áætlana.

Tillagan er að öðru leyti með hefðbundnu sniði, þ.e. að í henni er að finna áætlun um fjáröflun, svo og skiptingu útgjalda á helstu liði. Þá er í tillögunni að finna skrá um þjóðvegi og flokkun þeirra. Í athugasemdum með tillögunni koma fram skýringar á einstökum liðum hennar auk ýmissa upplýsinga um vegakerfið.

Rétt er að geta þess í upphafi að allar tölur eru settar fram á sama verðlagi, þ.e. áætluðu verðlagi þessa árs þannig að tölur eru sambærilegar milli ára. Gert er ráð fyrir því að verðlag áranna 2001--2004 verði hækkað við meðferð málsins á Alþingi. Verður nú vikið að helstu þáttum í tillögunni og byrjað á fjáröfluninni.

Við samþykkt gildandi vegáætlunar vorið 1998 var miðað við að markaðar tekjur að frádregnu 0,5% umsýslugjaldi stæði undir útgjöldum til vegamála. Á sl. vori ákvað ríkisstjórnin að veita 500 millj. kr. viðbótarframlag á ári til nýframkvæmda árin 1999--2002. Fyrsta árið var um lánsfé að ræða en bein framlög hin þrjú árin, 2000--2002. Endurgreiða skal lánsféð á árunum 2007--2010. Tekjuhlið vegáætlunar nú markast af þessum ákvörðunum.

Á árinu 2000 er nýframkvæmdum frestað fyrir 585 millj. kr. vegna þenslu í efnahagslífinu en þær koma inn árið eftir þannig að frestun er einungis til eins árs. Á þessu ári er auk þess reiknað með því að 126 millj. kr. af mörkuðum tekjum til Vegagerðarinnar verði geymdar í ríkissjóði til síðari nota. Þrátt fyrir það dugir niðurstöðutala ársins 2000 til að verðbæta gildandi vegáætlun ársins til að hún haldi framkvæmdagildi sínu. Er þá ekki tekið tillit til viðbótarfjár eða frestunar framkvæmdar. Miðað er við að tekjustofnarnir vaxi að raungildi um rúmlega 1,7% á ári í upphafi vegáætlunartímabilsins en fari niður í 1,3% í lok tímabilsins. Þessi aukning er í samræmi við umferðarspá Vegagerðarinnar. Gert er ráð fyrir að áætlaðir tekjustofnar verði hækkaðir til samræmis við verðlagshækkanir á tímabilinu þannig að vegáætlun haldi verðgildi sínu. Þetta þýðir að lækka þarf tekjustofnana um 3% fyrir árið 2000. Þar af hefur bensíngjald verið hækkað um 1,8% upp í þá hækkun.

Í samræmi við gildandi vegáætlun er gert ráð fyrir að greitt verði 0,5% af mörkuðum tekjum árlega í umsýslugjald til ríkissjóðs. Markaðar tekjur eru af bensíngjaldi, kílómetragjaldi þungaskatts og árgjaldi þungaskatts. Gert er ráð fyrir tekjustofnum þessum í greinargerð. Miðað er við það að tekjur þessar renni að fullu til Vegagerðarinnar með þeim undantekningum sem gerð hefur verið grein fyrir hér að framan.

Enn er ógetið að gert er ráð fyrir að endurgreiða árin 2000--2008 lán sem tekin voru vegna vegtengingar Hvalfjarðarganga. Nemur sú endurgreiðsla 40 millj. kr. á ári.

Næst er að víkja að gjaldahlið áætlunarinnar. Uppsetning tillögu um útgjöld og gjaldaliðir eru með svipuðu sniði og í vegáætlun fyrir árin 1998--2002. Nokkrar breytingar eru þó gerðar á uppsetningunni og er gerð grein fyrir þeim í grg. með tillögunni. Hér á eftir verður vikið að helstu útgjaldaliðum.

Í liðinn Stjórn og undirbúningur er gert ráð fyrir að fjárveitingar á árunum 2000--2002 verði í samræmi við það sem ætlað var til þessa liðar á vegáætlun áranna 1998--2002.

(Forseti (ÍGP): Má ég biðja hv. þm. að gefa betra hljóð í salnum.)

Ljóst er að með þessum fjárveitingum er verulega kreppt að þessum málaflokki þar sem verkefnin verða sífellt umfangsmeiri og flóknari og þarfnast samráðs og umsagnar fleiri aðila en áður var. Einnig er í mörgum tilfellum krafist meiri grunnrannsókna en áður eins og eðlilegt verður að teljast en slíkt eykur mjög vinnu og kostnað. Þá eru kröfur um upplýsingaþjónustu stöðugt vaxandi. Fjárveitingar til almennrar þjónustu eru samkvæmt tillögunni einnig í samræmi við fyrri vegáætlun fyrir árin 2000--2002. Þar er gert ráð fyrir því að fjárveitingar fari lítið eitt vaxandi og er lagt til að sú þróun haldi áfram árin 2003 og 2004, enda fara kröfur um þjónustu á vegakerfinu stöðugt vaxandi.

Fjárveitingar til vetrarþjónustu taka mið af meðalkostnaði við þennan lið undanfarin tíu ár og þeirri aukningu á þjónustu sem ákveðin hefur verið á síðustu árum. Að undanförnu hefur sýnt sig að veruleg þörf er á auknum hálkuvörnum og er því sennilegt að fjárveitingar á árinu 2000--2003 séu vanáætlaðar og þarf að skoða það sérstaklega.

Lagt er til að fjárveitingar til viðhalds þjóðvega fari nokkuð hækkandi á áætlunartímabilinu. Þó er ljóst að verulega vantar á að þessi liður fái það fjármagn sem þyrfti. Viðhaldsþörf vegakerfisins fer ört vaxandi með aukinni umferð og aukinni þyngd bifreiða. Einnig er mikilvægt að unnt sé í auknum mæli að sinna ýmsum öryggisaðgerðum og stuðla þannig að fækkun umferðarslysa.

Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir að fjármagn til nýrra þjóðvega verði í samræmi við langtímaáætlun í vegagerð. Framkvæmdaliðir eru einnig í samræmi við langtímaáætlun með þeirri undantekningu að við bætast liðirnir Þingvallahátíð og Ferðamannaleiðir báðir í samræmi við fyrri vegáætlun. Einnig bætist við liðurinn Viðbótarfé í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar á sl. vori sem fyrr var nefndur. Viðbótarféð er einkum notað til að flýta framkvæmdum við stórverkefni.

Eðlilegast er að fjármagni til almennra verkefna verði skipt milli kjördæma á sama hátt og ákveðið var við síðustu endurskoðun vegáætlunar. Framkvæmdaþörf á höfuðborgarsvæðinu er í samræmi við mikla fjölgun íbúa og vaxandi umferð, bæði einkabíla og hvers kyns flutninga. Fjármagn til höfuðborgarsvæðisins hefur vaxið verulega á undanförnum árum. Þrátt fyrir þessa aukningu veldur hin öra fjölgun íbúa á svæðinu því að þörf fyrir framkvæmdir eykst hraðar en aukning fjárveitinga. Við það bætist að sumar þessar framkvæmdir eru það kostnaðarsamar að þær rúmast tæpast innan vegáætlunar. Á þetta einkum við um svonefnda Sundabraut. Er nauðsynlegt að hugað verði að sérstakri fjármögnun þess verkefnis að einhverju eða öllu leyti.

Lagt er til að unnið verði að stórverkefnum í samræmi við markmið langtímaáætlunar. Gera verður ráð fyrir að samgn. fjalli um skiptingu fjármagns til einstakra stórverkefna eins og venja hefur verið. Varðandi tillögur um fjárveitingar til tengivega, brúa og girðinga vísast til grg. með tillögunni. Ríkið styrkir ferjurekstur á sex ferjuleiðum og eru rekstrarsamningar í gildi milli Vegagerðarinnar og rekstraraðila ferjanna. Fram til þess hefur einnig verið boðinn út rekstur á einni ferjuleið þ.e. rekstur Grímseyjarferjunnar en stefnt er að útboðum á öðrum ferjuleiðum. Nú hefur verið auglýst útboð á ferjurekstri til eyja á Ísafjarðardjúpi og er gert ráð fyrir að rekstur annarra ferjuleiða verði boðinn út á árinu.

[10:45]

Tilgangurinn með útboðum er fyrst og fremst sá að leitast við að ná fram lægra verði í innkaupum á vöru og þjónustu og skapa markaðslegan jafnræðisgrundvöll fyrir þá sem áhuga hafa á að sinna þessari starfsemi. Auk þess hefur Ísland með aðild sinni að Evrópska efnahagssvæðinu skuldbundið sig til þess að bjóða út kaup á þjónustu af þeirri stærðargráðu sem um er að ræða.

Lagt er til að við þennan lið, þ.e. til flóabáta, bætist nú styrkir til sérleyfishafa. Sérleyfishafar fengu áður endurgreiddan hluta þungaskatts af akstri á sérleyfisleiðum samkvæmt lögum um fjáröflun til vegagerðar. Lögunum hefur nú verið breytt, endurgreiðslur þessar aflagðar en í staðinn skal greiða sérleyfishöfum styrk af vegáætlun. Er lagt til að fjármagn til þessa liðar verði aukið af þeim sökum.

Lagt er til að fjárveitingar til nokkurra minni liða, safnvegir, tengivegir, styrkvegir og reiðvegir, hækki nokkuð á áætlunartímabilinu en mikil þörf hefur verið á því að hækka framlög þeirra. Þá liggur fyrir brtt. á vegalögum hvað varðar reiðvegi og girðingar og þarf einnig að líta til þess.

Við áframhaldandi vinnu þingmanna einstakra kjördæma við skiptingu fjármagns til einstakra verkefna þarf að taka ákvörðun um hvaða verkefnum ársins í ár verður frestað til næsta árs í samræmi við ákvörðun fjárlaga.

Í þessum tillögum eru vegir flokkaðir eftir 8. gr. vegalaga. Gerðar eru tillögur um nokkrar breytingar frá fyrri vegáætlun. Gert er ráð fyrir að samgn. og þingmönnum einstakra kjördæma verði gerð nánari grein fyrir vegaflokkuninni og brtt. við áframhaldandi vinnu tillögunnar.

Í dag hefur verið dreift á Alþingi tillögu Vegagerðarinnar um jarðgangaáætlun. Þar eru gerðar tillögur um næstu framkvæmdir á þessu sviði og gerð grein fyrir undirbúningi sem nauðsynlegur er áður en framkvæmdir hefjast. Fjalla þarf um tillögur þessar á Alþingi samhliða vegáætluninni þar sem ákvarðanir um gerð jarðganga hafa mjög sennilega áhrif á ákvarðanir um aðrar framkvæmdir í vegagerð.

Samgrh. fól Vegagerðinni í samræmi við ályktun Alþingis frá 11. mars 1999 að vinna langtímaáætlun um gerð jarðganga. Í skýrslu Vegagerðarinnar, sem fyrr er nefnd, til ráðherra kemur fram að 24 verkefni voru tekin til skoðunar. Af þeim leggur Vegagerðin til að þrjú verði tekin sem fyrstu verkefni og síðan eru tiltekin nokkur í viðbót sem talið er líklegt að komi til skoðunar í næsta áfanga. Lagt er til að jarðgangaáætlun sé gerð til tíu ára og hún endurskoðuð á fjögurra ára fresti.

Mat Vegagerðarinnar er að sem fyrstu verkefni í jarðgangaáætlun skuli telja eftirtaldar þrjár vegtengingar og ég þá tel þær upp í landfræðilegri röð því að allur er nú varinn góður. Þá er fyrst til að telja, Arnarfjörður/Dýrafjörður, Siglufjörður/Ólafsfjörður, Reyðarfjörður/Fáskrúðsfjörður. Þetta eru þau verkefni sem jarðgangaáætlunin tekur sérstaklega fram að verði þau fyrstu.

Ég lýsi þeirri skoðun minni að ég tel eðlilegt að hefja undirbúning strax að rannsóknum og gert verði ráð fyrir því að sem fyrsti áfangi verði Siglufjarðar-/Ólafsfjarðargöngin, Reyðarfjarðar-/Fáskrúðsfjarðargöngin boðin út í einum pakka og reynt verði að stuðla að því að framkvæmdir geti hafist strax og rannsóknir eru tilbúnar nema til þess komi að önnur röð yrði á þessum framkvæmdum svo sem miklar framkvæmdir í tilteknum landsfjórðungum. Ástæðan fyrir því að ég tel að það sé eðlilegt að bjóða þetta út í einum pakka er að það er mat sérfræðinga að það muni sparast 5--10% kostnaður með því að bjóða út svo stóran áfanga og þar með færi ekki á milli mála í hvaða verk ætti að ráðast en síðan er gert ráð fyrir því að Arnarfjarðar-/Dýrafjarðarverkefnið kæmi þar á eftir.

Eins og áður hefur komið fram er vegáætlun lögð fram á hefðbundinn hátt eins og vegalög mæla fyrir um. Ég tel mikla þörf á því að samræmi verði aukið í framkvæmdaáætlunum stofnana þeirra sem falla undir samgrn. Með því ætti að fást betri trygging fyrir því að hámarkshagkvæmni náist í framkvæmdum og samgöngukerfið í heild þjóni þörfum þjóðarinnar sem best. Ég hef því ákveðið að hrinda af stað vinnu við gerð samræmdrar samgönguáætlunar og mun sú vinna hefjast nú alveg á næstunni.

Ég vil ljúka þessari framsögu, herra forseti, um vegáætlun með því að leggja til að henni verði vísað til samgn. Það er von mín að allir þeir sem um málið fjalla leggi sig fram um að afgreiða það á skjótan og farsælan hátt en vissulega hefði verið hægt að hafa mun fleiri orð um þessa áætlun en tíminn gefur tilefni til.